Ekki verður hægt að hleypa heitu vatni á nýju hjáveitulögnina frá Svartsengi, sem hraun flæddi yfir í gær, í kvöld eins og stefnt var að.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum. Þar segir að vinnan við nýju lögnina hafi gengið vel en tafist örlítið, sem valdi seinkuninni.
Stefnt sé nú að því að hægt verði að hleypa heitu vatni á lögnina á miðnætti í kvöld.
„Til upplýsinga getur tekið allt að tvo sólarhringa til að ná fullum þrýstingi á lögnina og því þarf fólk að fara sparlega með vatnið áfram eftir að búið er að hleypa heitu vatni aftur á í kvöld.“
„Almannavarnir hvetja íbúa Suðurnesja að fylgjast vel með fréttum og leiðbeiningum vegna heitavatnsleysis sem má finna hér að neðan,“ segir í tilkynningu almannavarna.