Enn rafmagnslaust: Kerfið í Keflavík komið að þolmörkum

Rafmagnslaust er í innri Njarðvík.
Rafmagnslaust er í innri Njarðvík. Ljósmynd/Jakob Gunnarsson

Enn er rafmagnslaust í Innri-Njarðvík og vissum hverfum í Reykjanesbæ. Að sögn Sigrúnar Ingu Ævarsdóttur, samskipta og markaðsstjóra HS veitna, stendur enn yfir leit að því hvað veldur biluninni. 

„Á sumum stöðum í rafdreifikerfinu hefur álag verið að fara yfir þolmörk,“ segir Sigrún Inga. Segir hún hætt við því að fólk sé að nota eilítið of mikið rafmagn og hafi farið yfir þær 2,5 kílówatt stundir sem áætlaðar eru á hvert heimili. 

„Við erum að biðla til þeirra sem eru að fara yfir þessi mörk að spara rafmagn strax,“ segir Sigrún Inga. 

Um klukkan hálf tíu í kvöld fengu íbúar í Keflavík þau skilaboð að kerfið þar væri einnig komið að þolmörkum. Var því biðlað til fólks að fara eins sparlega með rafmagn og hægt er.

Vatni hleypt rólega inn á kerfið

Eins og fram kom fyrr í kvöld er komið vatn á Njarðvíkuræðina sem veitir heitu vatni til Reykjanesbæjar. 

„Vatnið berast í heitavatns tankana að Fitjum og þaðan verður vatni hleypt rólega inn á dreifikerfið. Það getur tekið einn til tvo sólarhringa að koma vatni til allra húsa,“ segir Sigrún Inga. 

Hún segir að rafmagnsleysið setji strik í reikninginn hvað það varðar að koma heitu vatni á húsin að nýju. 

„Dreifingin tefst því þetta helst allt saman í hendur. Það er mikilvægt að halda rafmagni á kerfinu svo hægt sé að koma vatni til allra húsa,“ segir Sigrún Inga. 

Á meðal þess sem HS Veitur biðla til íbúa er að nota ekki mörg rafmagnstæki á sama tíma í einu. Slökkva á rafmagnsofnum á meðan eldamennsku stendur og ekki hlaða rafbíla sína heima.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert