Faðir, frændi, kærasta og vinir Sindra báru vitni

Sindri Snær og lögmaður hans Sveinn Andri Sveinsson.
Sindri Snær og lögmaður hans Sveinn Andri Sveinsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls komu sjö vitni fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í aðalmeðferð hryðjuverkamálsins fyrir hádegi. Þar á meðal voru faðir, frændi, kærasta og vinir Sindra Snæs Birgissonar sem er sakborningur í málinu auk Ísidórs Nathanssonar.

Fyrstur til að bera vitni var Karl Steinar Valsson, sem fór fyrir rannsókn málsins hjá ríkislögreglustjóra, en nánar má lesa um vitnisburð hans hér að ofan.

Á eftir honum kom Birgir, faðir Sindra, fram fyrir dómi. Augljóst var að honum var heitt í hamsi og var ekki ánægður með rannsókn málsins.

Spurður út í rifflana

Birgir starfar nú í ferðaþjónustu en í upphafi vitnisburðar hans var óljóst hvort að hann hefði réttarstöðu í málinu. Hið rétta reyndist hann hefur réttarstöðu sakbornings fyrir vopnalagabrota hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Karl Ingi Vilbergsson spurði Birgi hvort að hann hefði ekki séð hann hlusta á vitnisburð sakborninganna í gær. Birgir sagðist hafa verið viðstaddur í tíu mínútur áður en Sveinn Andri bað hann um að fara.

Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá Héraðssaksóknara
Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá Héraðssaksóknara mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurningar saksóknara beindust aðallega að árásar rifflum, AK-15 og AK-47, sem voru í eigu Birgis og hversu mikinn aðgang Sindri hafði að þeim. Í skýrslutöku Sindra í gær var ljóst að hann hafði átt í samskiptum við vopnasalann og leiðbeint Birgi um hvaða vopn hann skyldi kaupa. Hann neitaði að Sindri hefði keypt rifflana í gegnum sig.

Birgir sagðist hafa staðgreitt rifflana í maí 2022 en hann fékk byssuleyfi í maí árið áður.

Vopnasalinn bar vitni síðar og sagðist hafa haldið að Birgir hefði lagt inn á hann, en sagðist ekki vera viss. Birgir nefndi meðal annars að það væri til mynd af honum með rifflunum þegar þeir voru keyptir.

Aðgerðir lögreglu „leikrit“

Birgir sagðist hafa notað rifflana áður en þeir voru gerðir upptækir í húsleit þann 13. september 2022.

Hann sagði að Sindri hefði ekki haft aðgang að byssuskápnum sem vopnin voru geymd í, þrátt fyrir að skápurinn hefði verið í svefnherbergi Sindra, og að hann, Birgir, hefði einn haft lykil að skápnum.

Líkt og áður sagði mátti greina talsverðan pirring í svörum Birgis við spurningum saksóknara og út í rannsókn lögreglu almennt auk skýrslur lögreglu. Á einum tímapunkti kallaði hann aðgerðirnar „leikrit“.

Birgir sagði að margt sem kom fram í samantektar skýrslu lögreglu vera rangt og að hann hefði ekki verið í góðu ástandi þegar skýrsla lögreglu var tekin. Dómari spurði þá hvort hann hefði sagt ósatt í skýrslutöku lögreglu og kom þá fát á Birgi.

Hann sagðist hafa fengið klukkustund til að mæta í skýrslutökuna og ekki gat ekki ráðfært sig við lögfræðing á þeim tíma.

Birgir sagði í skýrslutöku lögreglu að Sindri hefði verið illa staddur andlega á þeim tíma sem hann var handtekinn. Spurður nánar út í það í dómssal sagði Birgir að Sindri hefði verið atvinnulaus á þeim tíma.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Prófaði hálf sjálfvirkan riffil hjá Guðjóni

Birgir sagði að Sindri hefði prófað riffil hjá Guðjóni Valdimarssyni, föður Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra, sem hafði verið breytt í hálfsjálfvirkan riffil og fundist hann flottur.

Í framhaldinu hefðu þeir feðgar breytt eigin árásarriffil og prufað hann en breytingin virkað illa. Birgir bað þá son sinn um að breyta honum aftur í eins skota riffil sama dag.

Birgir sagði að lögreglan hefði ekki lagt hald á búnaðinn sem þurfti til að breyta rifflinum.

Sindri@vopn.is

Birgir nefndi að hann hefði keypt lénið vopn.is og ætlaði að flytja inn og selja ýmsan öryggisbúnað fyrir dyraverði. Hann sagðist hafa starfað sem dyravörður áður fyrr.

Birgir sagðist hafa verið komin með umboð fyrir alls konar búnað en nú, eftir að málið kom upp, væri áhuginn lítill fyrir að selja slíkan búnað

Um son sinn sagði hann Sindra vera: „Sniðugur strákur“, sem hefði margvísleg áhugamál. Þá nefndi Birgir að á einum tímapunkti hefði Sindri notað netfangið sindri@vopn.is.

Munir sem lögreglan lagði hald á í tengslum við málið.
Munir sem lögreglan lagði hald á í tengslum við málið. mbl.is/Hólmfríður María

Keypti þrívídda prentað vopn

Næstur til að bera vitni var maður sem hafði keypt þrívídda prentað vopn af Sindra og Ísidór. Sindri viðurkenndi fyrir dómi í gær að hafa selt fimm slík vopn.

Maðurinn hefur einnig réttarstöðu sakbornings  vegna vopnalagabrota hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. 

Spurður út í viðskiptin við Sindra og Ísidór sagðist maðurinn muna lítið eftir þeim þar sem hann „datt í það“ í desember árið 2021 eftir að hafa verið ellefu ár edrú.

Maðurinn sagði að líklega hefði fylgst hljóðdeyfir vopninu sem að gæti hafa verið olíusía.

„Ók breivik“

Þar á eftir kom frændi Sindra og var hann aðallega spurður út í tiltekin skilaboð þeirra á milli.

„Ég elska óreiðu – Fólk má deyja mín vegna – Varla til sú mann­eskja sem hef­ur sýnt mér kær­leika nokk­urn tím­ann um æv­ina – Al­mennt er fólk viðbjóður – Plága – Djöf­ull tek ég marga með mér þegar að því kem­ur,“ sendi Sindra á frændann.

Frændinn sagðist muna eftir samtalinu en hann svaraði „Ók breivik“.

„Vissi að þetta væri ekki rétt,“ sagði frændinn spurður hvort hann héldi að Sindri ætlaði að drepa fólk og því hefði hann svarað svo „fáránlega“. Þá sagði hann að Sindri hefði alist upp við mikla ást og kærleika.

„Mér fannst þetta vera fáránlegt,“ sagði frændinn. Hann sagði þá frændur ekki hafa rætt fjöldamorðingjann Anders Breivik áður.

Sindri bað frændann síðar um að eyða samskiptunum.

„Veikur eða ekki veikur“

Í samtalinu sagði frændinn Sindra vera í geðrofi. Frændinn sagðist fyrir dómi ekki muna sérstaklega eftir því að hafa ritað þau skilaboð.

Í skýrslutöku hjá lögreglu sagði frændinn að Sindri væri veikur maður. „Veikur eða ekki veikur,“ sagði frændinn fyrir dómi og bætti við að Sindri hefði lent í ýmislegu.

Hann nefndi að Sindri farið til Grænlands að vinna og þá hefði frændinn verið í litlu sambandi við hann.

Hann sagði að Sindri hefði áhuga á skotvopnum. Frændinn sagðist hafa áhyggjur af Sindra þegar hann var á Grænlandi þar sem hann hefði verið í kringum áfengi og vopn. Frændinn sagðist hafa mestar áhyggjur að atvinnan myndi ekki ganga upp og að Sindri færi sjálfum sér að voða, ekki öðrum.

Frændinn sagði að fjölmiðlaumfjöllun um hryðjuverkamálið hefði haft þau áhrif að hann hefði farið að efast um mann sem hann hefði þekkt frá því að hann fæddist.

Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson.
Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Merkti Sindra riffil

Á eftir honum kom vopnasali sem seldi föður Sindra AK-47 og AR-15 árásarriffla. Þá flutti hann CZ-557 riffil inn frá Grænlandi sem Sindri keypti þar. Hann hefur einnig réttarstöðu sakbornings vegna vopnalagabrota hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Byrjað var að deila um hvað árásarrifill er en vopnasalinn sagðist ekki selja árásarriffla, það er að segja hálf sjálfvirka og sjálfvirka riffla. Hann viðurkenndi þó að alltaf væri hægt að breyta þeim líkt og Sindri viðurkenndi að hafa gert.

Maðurinn sagðist hafa þekkt Sindra í meira en tíu ár og að þeir höfðu báðir mikinn áhuga á skotvopnum. Í dag er hann þó hættur að selja byssur.

Í málsgögnum málsins er meðal annars mynd af AK-47 rifflinum sem er merktur Sindra. Maðurinn sagðist hafa merkt riffilinn Sindra af því hann vissi ekki hvað pabbi hans Sindra héti.

Vopnasalinn sagði það vera algengt að fólk með byssuleyfi kaupi vopn fyrir aðra sem hafa ekki byssuleyfi er hann var spurður. Hann sagði þó ólíklegt að það væri staðan í þessu tilfelli.

Vopnasalinn viðurkenndi að hafa farið að skjóta úr riffli Birgis með Sindra, án Birgis viðstöddum en vopnasalinn hefur byssuleyfi.

Byrjaði aftur með Sindra

Næst var kærasta Sindra sem bar vitnisburð í gegnum fjarfundarbúnað en hún býr og starfar í Svíþjóð.

Hún sagði að þau Sindri hefðu kynnst árið 2020 og hætt saman í september árið 2021. Þau byrjuðu síðan aftur saman í júlí árið 2022.

Hún sagðist aldrei hafa séð skotvopn Birgis en séð byssuskápinn sem þau voru geymd í þar sem hann var í herbergi Sindra.

Munir sem lögreglan lagði hald á.
Munir sem lögreglan lagði hald á. mbl.is/Hólmfríður María

Í yfirheyrslu lögreglu sagði kærastan að Sindri ætti 3-4 byssur. Fyrir dómi sagði hún að hún skyldi spurninguna sem svo að 3-4 byssur væru á heimili Sindra en hún vissi að Birgir ætti þær. Þá sagði hún að Sindri hefði sagt við hana að þetta væru stórar byssur og ítrekaði að hún hefði aldrei séð þær.

Kærastann var spurð sérstaklega út í hvar Sindri var þegar Gleðigangan var í Reykjavík árið 2022, en sakborningarnir töluðu meðal annars sín á milli um gönguna. Hún lýsti því fyrir dómi hvar þau voru þennan dag, hvergi nærri Gleðigöngunni.

„Gaurahúmor“

Hún var spurð hvort að Sindri hefði verið í jafnvægi í ágúst árið 2022 og svaraði hún játandi og því hefðu þau tekið saman aftur.

Hún lýsti samskiptum Sindra og Ísidórs sem „gaurahúmor“, húmor sem hún deildi ekki með þeim.

Kærastan sagðist hafa hitt Ísidór einu sinni og fengið góða tilfinningu fyrir honum. „Mjög fínn strákur“ sagði hún og sagði hann hafa komið mjög vel fyrir.

Að lokum sagði kærasta Sindra að hann hefði ekki rætt við sig um vopn, en að hann hefði haft áhuga á þeim.

Einar Oddur Sigurðsson, verjanda Ísidórs, Ísidór og Sindri.
Einar Oddur Sigurðsson, verjanda Ísidórs, Ísidór og Sindri. mbl.is/Hákon

Sindri misnotaður í æsku

Síðastur fyrir hádegishlé var maður sem var handtekinn ásamt sakborningunum í aðgerðum lögreglu 21. september árið 2022 en síðan sleppt. Alls voru fjórir handteknir þann dag. Maðurinn sagðist hafa þekkt Sindra frá unglingsaldri.

Hann hefur einnig réttarstöðu sakbornings vegna vopnalagabrota hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Hann hafði einnig fengið þrívídda prentaða byssu frá Sindra sem hann ætlaði að láta annan einstakling fá. Hann neitaði að gefa upp fyrir dómi hver sá einstaklingur sé.

Hann sagði hljóðdeyfi ekki hafa fylgt byssunni sem var afhent á heimili hans.

Í skýrslutöku lögreglu greindi maðurinn frá því að Sindri hefði lent í ýmsu á lífsleiðinni.

Sindri Snær í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Sindri Snær í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurður fyrir dóminum hvað hann meinti með því kom fát á manninn sem sagði loks að Sindri hefði verið misnotaður. Þá sagði hann að kerfið hefði brugðist Sindra.

Hann vildi ekki meina að Sindri hefði verið með skemmda sál eins og hann sagði við lögreglu. Hann sagði einnig við lögreglu að Sindri hefði verið í geðrofi en vildi ekki kannast við það fyrir dómi.

Maðurinn sagði að Sindri hefði sýnt honum myndskeið af skotvopnum á netinu en í húsnæði sem maðurinn hafði aðgang að fannst mikið magn af skotvopnum. Hann sagðist ekki geta útskýrt hvers vegna vopnin voru þar en húsnæðið var ekki í hans eigu. 

Vitnaskýrslur í hryðjuverkamálinu halda áfram eftir hádegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka