Ólafur E. Jóhannsson
„Við höfum stöðugt orðið fyrir því að rafmagn hefur af ýmsum ástæðum verið að fara af eldisstöð okkar, síðast vegna þess að hraun rann yfir tenginguna inn í Grindavík sem liggur þaðan til okkar. Nú er rafmagnslaust því að rafmagnið var tekið af vegna þess að hraun er farið að renna undir háspennulínurnar sem liggja frá Svartsengi,“ segir Christo du Plessis, framkvæmdastjóri fiskeldisfyrirtækisins Matorku, í samtali við Morgunblaðið.
Matorka framleiðir bleikju í eldisstöð skammt vestan Grindavíkur. Urðu nokkur eldisker þess illa úti í jarðhræringum sem urðu vegna kvikuhlaups í nóvember, sem varð til þess að um 80 tonn af fiski drápust. Um 600 tonn af bleikju eru í eldi í stöðinni og slagar verðmæti afurðanna upp í milljarð króna. Vegna lokunar Grindavíkur þurfti fyrirtækið að loka vinnslunni þar, en flytur allan eldisfiskinn til Hafnarfjarðar til frekari vinnslu fyrir útflutning.
„Við erum háð þessu rafmagni, sem er lífæð fyrir starfsemina. Við dælum vatni úr borholum í hrauninu, sem síðan rennur í gegnum eldiskerin okkar, og án rafmagns getum við ekki dælt því upp. Ef við fáum ekki nýtt vatn inn í kerfið höfum við aðeins hálfa til eina klukkustund til að bregðast við áður en fiskurinn einfaldlega drepst. Óvissa um raforkuöryggi er vandinn sem við erum að glíma við rekstrarlega, eins og staðan er í dag,“ segir Christo.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.