Forsenduákvæði vegi að sjálfstæði Seðlabanka

Samtök atvinnulífsins eru til húsa í Húsi atvinnulífsins.
Samtök atvinnulífsins eru til húsa í Húsi atvinnulífsins. Ófeigur Lýðsson

Samtök atvinnulífsins (SA) telja mikið virði felast í þeim stöðugleika sem fylgir langtíma kjarasamningum. Telja þau því mikilvægt að forsenduákvæði sem samið er um valdi því ekki að stöðugleikinn ríki einungis til skamms tíma. 

Þetta kemur fram í tilkynningu sem samtökin sendu frá sér í kvöld. Er með tilkynningunni brugðist við slitum breiðfylkingarinnar á kjaraviðræðum.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, sagði í samtali við mbl.is að málið hafi strandað á því að SA hafi ekki viljað ganga að forsenduákvæði um að hægt verði að segja upp samningum ef verðbólga fer yfir 7% á samningstímanum og ef vextir lækka ekki um 2,5%.

Samningar skapi skilyrði fyrir minni verðbólgu 

„Samningsmarkmið í þeim kjaraviðræðum sem Samtök atvinnulífsins hafa átt við breiðfylkingu stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði að undanförnu hefur verið að gera langtímasamninga sem skapi skilyrði fyrir minni verðbólgu og lægri vexti,“ segir í tilkynningunni.

„Þá er mikilvægt að forsenduákvæði kjarasamninga vegi ekki að sjálfstæði Seðlabankans. Lögbundið hlutverk bankans er að halda verðbólgu við markmið og beita til þess stýrivaxtatækinu. Það er svo hlutverk aðila vinnumarkaðarins að skapa umhverfi sem stuðlar að þessu markmiði,“ segir í tilkynningunni.

Tilbúin að halda samtali áfram 

Segir í tilkynningunni að SA séu reiðubúin sem fyrr að halda samtalinu áfram. Markmiðið sé áfram að stuðla að aukinni sátt og móta heildstæða launastefnu sem skapar skilyrði fyrir minni verðbólgu og lægri vexti. Það verði áfram verkefnið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert