„Þeir 4.000 íbúar sem búa í Grindavík hafa verið fluttir á brott og það sem nú hefur verið gert síðasta sólarhringinn er að flytja alla á burt frá Bláa lóninu,“ segir Bjørn Richard Johansen, „Íslands-sérfræðingur“ Noregs, í viðtali við TV2 en Johansen var alþjóðlegur upplýsingafulltrúi Glitnis fyrir bankahrun og hóf störf fyrir ríkisstjórnina í hruninu miðju þar sem hann hafði með höndum áfalla- og stórslysastjórnun.
Johansen ræddi nýjasta gosið á Reykjanesskaga við TV2 í gær, væntanlegar úrbætur íslensku ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum Grindvíkinga og þjóð sem sé vön því að vinna tvö til þrjú störf og laga sig að aðstæðum á leifturhraða.
„Eitt af því mest spennandi á Íslandi er þó það sem gerist á morgun [í dag]. […] Þá leggur ríkisstjórnin frumvarp fyrir Alþingi sem snýst um að kaupa íbúðirnar af Grindvíkingum og taka þannig ábyrgð á þeim fjölskyldum og einstaklingum sem eiga um sárt að binda vegna hamfaranna,“ segir Johansen.
Spyrill TV2 spyr þá hvernig hann reikni með því að atkvæði falli á þinginu og kveðst Johansen þess nokkuð viss að þingheimur verði á einu máli um að veita aðstöðuna. „Á Íslandi er rík hefð fyrir samstöðu og í frumvarpinu er klásúla um að fólk geti keypt húsnæði sitt til baka þróist málin á betri veg en útlit er fyrir,“ segir Johansen.
„En hvernig höndla íslensk stjórnvöld og almenningur þessa ógn af sífelldum eldgosum?“ er hann spurður.
„Íslenska þjóðin er vön því að lifa með sterkum náttúruöflum, hún hefur gert það alla sína tíð. Auk þess eru Íslendingar vanir að bregðast skjótt við aðstæðum sem upp koma, þegar fiskurinn kemur þá veiða þeir. Á Íslandi er alvanalegt að fólk vinni tvö til þrjú störf svo Íslendingar eru miklir vinnuþjarkar og kunna að koma auga á tækifærin,“ svarar Johansen og kveður Íslendinga lunkna við að notfæra sér fyrirbæri á borð við náttúruöflin til að gera landið spennandi á alþjóðavettvangi og laða til sín ferðamenn.
Spyrillinn telur sig ekki hafa fengið fullnægjandi svör við spurningunni. „Skapar þetta ekki ótta?“ spyr hún.
„Ja, eins og ég sagði, það er eitthvað með Íslendingana, snjóbylur í Noregi er eitt en þegar slíkt gerist á Íslandi er það öflugt,“ segir Johansen og kveður íslenskan storm hegða sér allt öðruvísi en það sem Norðmenn þekki. „Þeir eru vanir erfiðum og harðneskjulegum aðstæðum og að spila hlutina eftir eyranu.“
Spyrilinn fýsir að vita meira um ferðamannaiðnaðinn. Nú sé gosið ískyggilega nærri Bláa lóninu. Hvernig telur Johansen að erlendir ferðamenn taki því?
„Vissulega mun það valda einhverjum ferðamönnum vonbrigðum að komast ekki í Bláa lónið en auðvitað má gera því skóna að fólk hafi skilning á því að við svona aðstæður sé það bara ekki hægt,“ segir Johansen og heldur áfram. „Þegar Eyjafjallajökull gaus árið 2010 heimsóttu 550.000 ferðamenn Ísland, en árið 2019, rétt fyrir faraldurinn, var sú tala komin upp í 2,1 milljón,“ segir Johansen og notar það sem dæmi um hvernig Íslendingum hafi auðnast að kynna landið gegnum gosið.
„Þeir notuðu það gos til að deila því sem væri magnað og einstakt við Ísland sem gerði það að verkum að ferðamannafjöldinn margfaldaðist,“ segir Bjørn Richard Johansen að lokum í viðtali við TV2 um eldgos, náttúruhamfarir og íslenska þrautseigju og ráðagæði.