Landsréttur hefur snúið við dómi í bjórdeilu og sýknað Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) af kröfu áfengisinnflytjanda.
Heildverslunin Dista ehf. höfðaði mál á hendur ÁTVR í júní 2021 og krafðist ógildingar á tveimur ákvörðunum ÁTVR um að fella tvær bjórtegundir úr vöruúrvali þeirra og hætta innkaupum þeirra þar sem þær hefðu ekki náð ákveðnu viðmiði um framlegð.
Byggði Dista á því að ÁTVR hefði verið óheimilt að byggja ákvörðunartöku sína á framlegð þar sem það viðmið ætti ekki stoð í lögum um verslun með áfengi og tóbak, heldur bæri við ákvarðanir þar um að miða við eftirspurn kaupenda, sem vísað væri til í 5. mgr. 11. gr. laga um verslun með áfengi og tóbak sem réðist af sölumagni hlutaðeigandi vöru.
Í júní 2022 felldi Héraðsdómur Reykjavíkur úr gildi ákvarðanir ÁTVR á þeim forsendum að þær hafi brotið í bága við 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar og lögmætisreglu íslensks réttar.
Landsréttur, sem kvað upp sinn í dóm í dag, er á öðru máli.
Í niðurstöðu Landsréttar var rakið að samkvæmt fyrrnefndu ákvæði skyldi ráðherra setja nánari reglur um vöruval, innkaup og dreifingu ÁTVR á áfengi, sem skyldu miða að því að tryggja vöruúrval m.a. með hliðsjón af eftirspurn kaupenda, jafnframt því að tryggja framleiðendum og birgjum áfengis möguleika á að koma vörum í sölu í áfengisverslunum.
Að virtri breytingarsögu ákvæðisins varð ekki ráðið að ætlun löggjafans hefði verið að hrófla við þeirri áralöngu tilhögun að miða árangursviðmið um vöruval við framlegð.
Þá var fallist á með ÁTVR að viðmið um framlegð endurspeglaði eftirspurn og væri betur til þess fallið að tryggja vöruúrval í verslunum ÁTVR og sölumöguleika birgja. Var einsýnt að mati réttarins að þau sjónarmið sem lágu til grundvallar framlegðarviðmiði teldust málefnaleg og í samræmi við markmið áfengislaga um að ÁTVR skyldi starfa með samfélagslega ábyrgð og lýðheilsu að leiðarljósi.
Var því niðurstaða Landsréttar að framlegðarviðmiðið ætti sér fullnægjandi lagastoð.
Þá var ekki fallist á með Dista að ÁTVR hefði brotið gegn andmælareglu stjórnsýsluréttar, en ljóst þótti að Dista var kunnugt um þau viðmið sem réðu vöruvali ÁTVR og að afstaða innflytjandans til þeirra lá fyrir. Var því óþarft að gefa Dista kost á að tjá sig um efni málsins.
Loks var hafnað málsástæðum Dista um valdþurrð þess starfsmanns ÁTVR sem tók hinar umþrættu ákvarðanir og um brot á öðrum meginreglum stjórnsýslulaga.
Var ÁTVR því sýknað af kröfum Dista.
Dista var jafnframt gert að greiða ÁTVR 1,5 milljónir kr. í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.