Nýja hraunið sést vel á gervitunglamynd

Yfirlitsmynd af hrauninu kl. 13:04 í gær sem sýnir vel …
Yfirlitsmynd af hrauninu kl. 13:04 í gær sem sýnir vel hvenig hraunið flæddi til norðvesturs og svo til vesturs yfir Grindavíkurveg og hitavatnslögnina. Ljósmynd/Sentinel-3 gervitungl Copernicus EU

Kóperníkusaráætlun Evrópusambandsins birtir í dag uppfærða mynd af gosstöðinni milli Sund­hnúks og Stóra-Skóg­fells, þar sem gos hófst í gær. Um er að ræða yfirlitsmynd sem tekin var af SENTINEL-2 gervitungli Copernicus EU klukkan 13.04 í gær, eða sjö klukkustundum eftir að gosið hófst.

Í gær birti mbl.is sambærilega mynd, en á nýju myndinni sést betur staðsetning hraunsins með tilliti til nálægra kennileita, auk þess sem litur nýja hraunsins er mun greinilegri og því hægt að greina betur hvar nýja hraunið hefur farið yfir það gamla sem kom í desember.

Þá sést einnig mjög vel á myndinni hvernig hrauntaumurinn fór fyrst til norðvesturs áður en hann skiptist í tvo hraunstrauma. Annan styttri sem fór beint til norðurs, en svo þann kraftmeiri sem fór til vesturs og á örskömmum tíma hafði farið yfir Grindavíkurveg og síðan að hitaveitulögninni frá Svartsengi að Reykjanesbæ með þeim afleiðingum að hitavatnslaust varð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert