Stefna að fjölgun íbúða í Vík

Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, Elmar Erlendsson, sviðsstjóri hjá HMS …
Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, Elmar Erlendsson, sviðsstjóri hjá HMS og framkvæmdastjóri Brákar íbúðafélags, og Marinó Þórisson, framkvæmdastjóri SV3 ehf. Ljósmynd/Mýrdalshreppur

Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, undirritaði í dag, fyrir hönd sveitarfélagsins, viljayfirlýsingu um fjölgun íbúða í Vík.

Verkefnið felst í byggingu 16-20 íbúða fjölbýlishúss þar sem Brák leigufélag mun kaupa á bilinu 10-12 íbúðir með stofnframlögum frá ríki og sveitarfélagi, að því er segir á vef Mýrdalshrepps.

Framkvæmdir geti hafist í ár

Þar segir enn fremur, að yfirlýsingin sé undirrituð af fulltrúum Mýrdalshrepps, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) og byggingaraðilans SV3 ehf. Ákveðið var að ganga til samninga við SV3 í kjölfar þess að auglýst var eftir áhugasömum byggingaraðilum í desember.

„Verkefnið er unnið á grundvelli samnings sem sveitarfélagið og innviðaráðuneytið samþykktu í nóvember 2023 um íbúðauppbyggingu til næstu 10 ára og er í samræmi við húsnæðisáætlun sveitarfélagsins.

Vonir standa til þess að framkvæmdir geti hafist um mitt ár 2024 og að þeim verði lokið um mitt ár 2025,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka