„Það hefur ekki verið forgangsraðað rétt“

Ívar Sindri Karvelsson er hótelstjóri á Courtyard by Marriott í …
Ívar Sindri Karvelsson er hótelstjóri á Courtyard by Marriott í Keflavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Finna þurfti ríflega 200 gestum á Marriott-hótelinu í Keflavík nýtt gistipláss í gær eftir að ljóst varð að heitavatnslaust yrði í bænum.

Gangi áætlanir um að tengja heitavatnslögnina eftir í dag gerir hótelstjórinn ráð fyrir að rekstur gæti hafist að nýju á morgun eða sunnudag. Hann telur að forgangsraða hefði mátt betur til að tryggja heitt vatn á Suðurnesjum.

Ívar Sindri Karvelsson er hótelstjóri á Courtyard by Marriott í Keflavík. Heitavatnslaust er á hótelinu líkt og víðast hvar á Suðurnesjum. Hann segir hótelið hafa haft áætlun ef til þessa kæmi. Segir hann að halda þurfi ákveðnum gæðastuðli og án þess að vera með heitt vatn hafi verið ljóst að ekki væri hægt að halda honum.

Fundu gestunum pláss á hótelum í Reykjavík

Strax og ljóst varð að heitavatnslaust yrði var farið í að ræða við alla gesti og unnið að því að koma þeim fyrir á öðrum Marriott-hótelum í Reykjavík. Hann segir hins vegar að margir gestir hafi áfram vilja vera á hótelinu.

„Allir sem hafa komið hingað hafa verið mjög skilningsríkir. Þeir hefðu kosið að vera hjá okkur vegna þess hvað við erum á frábærum stað. Það hefur jafnvel verið erfitt að sannfæra þá um að fara þó við værum að telja að við værum að uppfæra gestina,“ segir Ívar.

Gangi áætlanir um nýja lögn frá Svartsengi upp er horft til þess að koma heitu vatni á lögnina í dag. Ívar segir mikilvægt að það takist. „Ef hiti kemur ekki á fljótt gæti það haft miklar afleiðingar.“

Segir hann hótelið hafa fylgt fyrirmælum almannavarna og lokað öllum rýmum og reynt að halda sem mestum hita inni.

Courtyard by Marriott í Keflavík. Í gær þurfti að finna …
Courtyard by Marriott í Keflavík. Í gær þurfti að finna um 200 gestum þess pláss á hótelum í Reykjavík vegna heitavatnsleysis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við tökum þetta bara dag fyrir dag“

Hann segir talsvert fjárhagslegt tjón þegar hafa orðið með tekjutapi og kostnaði við að koma gestum fyrir á öðrum hótelum. Hann segir hins vegar möguleika á að hefja aftur starfsemi á morgun ef heitt vatn komist á í dag. „En við tökum þetta bara dag fyrir dag,“ segir hann og bætir við að það gæti verið líklegra að það tefjist fram á sunnudag.

Ívar segir hótelið ekki að fullu rekstrarhæft strax og hitinn kemst á lögnina.

„Ef við horfum á þetta mjög kalt. Þó lögnin sé aftur komin á, þá tekur talsverðan tíma þangað til hitinn kemur sjálfur til húsa og skilar sér til húsa þannig að hægt verði að kynda. Þó lögnin sé komin í lag þá eru þetta samt einhverjir 24 tímar. Þetta gæti því orðið seint á laugardagskvöld eða á sunnudegi.“

„Klárlega hefur þetta ekki virkað

Framkvæmdir við nýju lögnina hófust í byrjun þessa árs og hefur komið fram gagnrýni á að ekki hafi verið hugað fyrr að auknu heitavatnsöryggi svæðisins. Ívar tekur undir það og segir að klárlega hefði átt að vera byrjað mun fyrr á aukalögn.

„Ég held að menn átti sig á því núna að það hefur ekki verið forgangsraðað rétt hjá fyrirtækinu sjálfu [HS veitum], ríkinu og jafnvel hjá sveitarfélaginu að hafa ekki kallað almennilega eftir þessu. Það hefur ekki verið barátta fyrir því að tryggja að við búum við tryggt heitt vatn til að hita húsin til framtíðar,“ segir Ívar.

„Klárlega hefur þetta ekki virkað fyrst við erum í þessum aðstæðum í dag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert