„Við verðum að fara að hugsa okkar gang“

Gosið sem hófst snemma í gærmorgun er hægt og rólega …
Gosið sem hófst snemma í gærmorgun er hægt og rólega að líða undir lok. Það hefur þó þegar valdið miklu tjóni. mbl.is/Árni Sæberg

Þorvaldur Þórðarson, pró­fess­or í eld­fjalla­fræði, gagnrýnir seinagang stjórnvalda í fyrirbyggjandi aðgerðum vegna eldsumbrota.

Á sama tíma og hann segir Íslendinga frábæra í viðbragði þá segir hann nauðsynlegt fyrir okkur að vera jafn góð í fyrirbyggjandi aðgerðum. Enda ljóst að tímabil eldsumbrota á Reykjanesskaganum sé ekki lokið, þó komið sé að lokum eldgossins sem hófst í gær.

Þorvaldur vill að samtal milli stjórnvalda, vísindamanna og verkfræðinga verði …
Þorvaldur vill að samtal milli stjórnvalda, vísindamanna og verkfræðinga verði virkjað. Samsett mynd

 „Þetta er svona eiginlega alveg eftir bókinni. Mér sýnist þetta bara verða stysta gosið,“ segir Þorvaldur í samtali við mbl.is og bætir við að teikn séu um að landris sé hafið á ný, þó enn eigi eftir að staðfesta það.

„Ef svo er þá er hætt við að staðan endurtaki sig og að við fáum annað lítið gos eftir þrjár, fjórar vikur. Hvort að það verði styttra, lengra eða jafn langt gos er erfitt að segja. En ég á von á að það verði svipað.“

Alls ekki nægilega vel undirbúin 

Spurður hvort stjórnvöld hafi sofið á verðinum varðandi fyrirbyggjandi aðgerðir á Reykjanesskaga vegna yfirvofandi eldsumbrota, sérstaklega með tilliti til Njarðvíkuræðarinnar sem fór í sundur gær og olli því að hitavatnslaust varð í Reykjanesbæ seint í gærkvöldi, svarar Þorvaldur því til að almennt séð hefðum við alls ekki verið nægilega vel undirbúin.

„Við verðum að fara að breyta hugsunarhættinum. Við erum frábær í viðbragði og við verðum bara að vera jafn góð í fyrirbyggjandi aðgerðum,“ segir Þorvaldur og bætir við:

„Við verðum að fara að hugsa okkar gang. Vegna þess að ef við erum með góðar fyrirbyggjandi aðgerðir þá getum við spornað við hugsanlegum áhrifum af þessum eldgosum.“

Þorvaldur segir viðhorf samfélagsins til eldsumbrota eiga stóran þátt í því að ekki hafi verið ráðist með jafn markvissum hætti í fyrirbyggjandi aðgerðir. Hann segir að þegar þegar fólk sjái ekki hlutina eða áhrif þeirra með berum augum þá hafi þeir ekki jafn mikil áhrif og fólk sé rólegra.

„Nú er kominn tími til að breyta þessum hugsunarhætti og viðhorfi.“

Hraunið rann yfir Njarðvíkuræðina og í átt að Bláa lóninu.
Hraunið rann yfir Njarðvíkuræðina og í átt að Bláa lóninu. mbl.is/Árni Sæberg

Reykjanesbrautin í bráðri hættu 

Í því samhengi segir Þorvaldur nauðsynlegt að hrinda af stað vinnu við fyrirbyggjandi aðgerðir. „Við þurfum að byrja núna,“ segir Þorvaldur og ítrekar að tímum eldsumbrota á Reykjanesskaganum sé ekki lokið.

Hann nefnir sem dæmi að ef gýs norðan Stóra-Skógfells þá sé Reykjanesbrautin í bráðri hættu.

„Eins og staðan er núna þá er Suðurstrandavegur lokaður og það fer enginn í gegnum Grindavík. Ef Reykjanesbrautin lokar þá einangrast Suðurnesin,“ segir hann og minnir á að Reykjanesið geti jafnframt farið í gang, auk þess sem gosið geti á öðrum gígaröðum á Reykjanesskaga.

Nauðsynlegt að virkja samtal um stöðuna

Spurður hvað felist í fyrirbyggjandi aðgerðum segir Þorvaldur alls ekki verið að tala um að byggja varnargarða um allan Reykjanesskagann, „en það er ágætt að hafa plönin tilbúin“. Kostnaður við að undirbúa varnargarða sé einungis brot af kostnaðinum sem hlýst af því að reyna að bjarga eða vernda innviði á svæðinu.

Aðspurður segir hann viðhorf stjórnvalda gagnvart ákalli vísindamanna um að grípa þurfi til fyrirbyggjandi aðgerða hafa batnað í kjölfar tíðra eldsumbrota á síðustu árum.

„Menn eru farnir að veita þessu nokkra athygli, því núna sjá þeir þetta fyrir sér. En bæði samtalið og samstarfið milli stjórnvalda, jarðvísindamanna, verkfræðinga og félagsvísindafólks má vera miklu betra og breiðara,“ segir Þorvaldur sem óskar eftir því að samtalið verði virkjað.

Þá segir hann samfélagið jafnframt geta gert miklu betur. Spurður nánar út í það svarar hann að samfélagið megi taka meiri þátt í að þrýsta á fyrirbyggjandi aðgerðir auk þess að kynna sér eldsumbrot og afleiðingar þeirra.

„Með því að taka þátt í þessu verður fólk tilbúnara að takast á við þessa hluti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert