Bæjarstjórar funda: „Grafalvarleg staða“

„Það er í rauninni bara verið að fara yfir næstu …
„Það er í rauninni bara verið að fara yfir næstu skref,“ segir væjarstjóri Voga. mbl.is/Árni Sæberg

Bæj­ar­stjór­ar á Suður­nesj­um funda með aðgerðastjórn al­manna­varna nú fyr­ir há­degi í Reykja­nes­bæ, þar sem aft­ur er heita­vatns­laust á Suður­nesj­um.

„Það er í raun­inni verið að fara yfir stöðuna. Hún er tals­vert breytt frá því sem hún var í gær,“ seg­ir Gunn­ar Axel Ax­els­son, bæj­ar­stjóri Voga, sem var á leiðinni á fund­inn þegar mbl.is náði tali af hon­um.

Hjá­v­eitu­lögn meðfram Njarðvíkuræð gaf sig í nótt, með þeim af­leiðing­um að aft­ur er orðið heita­vatns­laust á Suður­nesj­um. Á sama tíma hef­ur verið mikið kulda­veður í lands­hlut­an­um. Gunn­ar lýs­ir stöðunni sem grafal­var­legri.

„Það er í raun­inni bara verið að fara yfir næstu skref. Fá upp­lýs­ing­ar frá HS Orku og viðbragðsaðilum sem eru að vinna í plani b,“ bæt­ir bæj­ar­stjór­inn við.

4.000 hita­blás­ar­ar aug­lýst­ir í dag

„Það er búið að fá tals­vert mikið af hita­blás­ur­um á svæðið. Það voru hátt í fjög­ur þúsund sem áttu að koma í hús í morg­un, sem verður svo dreift til þeirra sem hafa ekki haft tæki­færi til þess að afla sér slíkra tækja,“ seg­ir hann.

„Við erum kannski fyrst og fremst að huga að fólki sem býr eitt.“

Erfitt sé að segja til um fram­vind­una næstu daga.

„Það eina sem er ljóst er að þetta mun taka tals­vert lengri tíma en vænt­ing­ar stóðu til í gær,“ bæt­ir Gunn­ar Axel við.

Kuld­inn mun vara í nokkra daga

„Við ger­um ráð fyr­ir því að þetta muni vara í ein­hverja daga til viðbót­ar og að þjón­usta sveit­ar­fé­lag­ana, skól­ar og slík starf­semi verði að öll­um lík­ind­um skert, ef nokk­ur, á næstu dög­um. Það kem­ur bet­ur í ljós í dag,“ seg­ir Gunn­ar.

Þá verður einnig til umræðu hvort opna eigi fjölda­hjálp­ar­stöð.

Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri í Vogum.
Gunn­ar Axel Ax­els­son, bæj­ar­stjóri í Vog­um. Mtynd/​Sig­urður Bogi

„Það er orðið býsna kalt“

Gunn­ar seg­ir aðspurður að and­rúms­loftið í Vog­un­um hafi verið yf­ir­vegað síðustu daga, þrátt fyr­ir mik­inn kulda þar á bæ, sem er far­inn að sækja í sig veðrið.

„Þetta er nátt­úru­lega grafal­var­leg staða og það er orðið býsna kalt. Fólk er farið að finna mjög fyr­ir ástand­inu,“ seg­ir hann.

„Nú þurf­um við auðvitað að fara að huga sér­stak­lega að þeim ein­stak­ling­um sem búa við þannig aðstæður að þeir þurfa á sér­stakri aðstoð að halda.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert