Kaldir dagar og nætur fram undan

Hjáveitulögnin meðfram Njarðvíkuræðinn fór í sundur. Íbúar Suðurnesja verða því …
Hjáveitulögnin meðfram Njarðvíkuræðinn fór í sundur. Íbúar Suðurnesja verða því án heits vatns lengur en talið var. Rafmagnsleysi hefur einnig gert vart við sig. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Næstu dagar og nætur geta orðið kaldar í húsum á Suðurnesjum. Hjáveitulögn meðfram Njarðvíkurlögninni fór í sundur og ekki er unnt að gera við hana að svo stöddu. 

Almannavarnir beina því til íbúa á Suðurnesjum að fara sparlega með rafmagn, en rafmagnsleysis gætti víða á Suðurnesjum í kvöld vegna álags. 

Í tilkynningu segir að rafdreifikerfi HS Veitna sé ekki hannað til húskyndingar og því þoli það ekki mikla álagspunkta. Er það því ítrekað að íbúar fari sparlega með rafmagn. Muni það skipta sköpum fyrir næstu daga. 

Opna glugga þegar gas er notað

Þá eru þeir íbúar sem orðið hafa sér úti um gashitara minntir á mikilvægi þess að hafa opna glugga þegar gas er notað. Einnig sé mikilvægt að slökkva á öllu gasi áður en fólk fer að sofa og setja gaskútinn út fyrir dyr. 

Aldrei á að nota gas í lokuðu rými innanhúss og yfir nótt, mikilvægt er að lofta um rými þar sem gas er í notkun.

Til að halda rafmagni á húsum er mikilvægt að allir hámarki rafkyndingu við 2,5 kW á hverja íbúð, fari sparlega með rafmagn, slökkva á rafmagnsofnum á meðan önnur orkufrek raftæki eru notuð og hlaði ekki rafbíla heima fyrir heldur noti hverfahleðslur og hraðhleðslur sem í boði eru á svæðinu.

Frekari upplýsingar um framhaldið og stöðu mála verða sendar til íbúa á morgun.

Upplýsingar vegna heitavatnsleysis.

Ráðleggingar frá Félagi pípulagningamanna og Samtaka rafverktaka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert