Veðurstofa Íslands hefur lýst því yfir að eldgosinu sem hófst á milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells að morgni fimmtudagsins 8. febrúar sé lokið.
„Engin gosvirkni sást í drónaflugi á vegum sérsveitarinnar seinni partinn í gær og ekki hefur orðið vart við gosóróa á skjálftamælum síðan þá,“ segir í Facebook-færslu Veðurstofunnar.
Jarðskjálftavirkni á umbrotasvæðinu hafi verið minniháttar síðastliðinn sólarhring.
Fram kemur að GPS-mælar hafi sýnt skýr merki landsigs í Svartsengi í kjölfar gossins en enn sé þörf á lengri tímaröð mælinga til að greina óyggjandi merki um hvort landris sé hafið að nýju.