Segir fullyrðingar Vilhjálms rangar

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir það rangt að SA hafi ekki viljað fallast á forsendur um að verðbólga yrði innan við 7% og að vextir myndu lækka um 2,5% á samningstímanum, eins og breiðfylkingin hefur haldið fram.

Úr slitnaði í kjaraviðræðum breiðfylk­ing­ar stærstu lands­sam­banda og stétt­ar­fé­laga á al­menn­um vinnu­markaði og SA í gær, eft­ir að þær strönduðu á for­sendu­ákvæði.

„Óreiða“ á framsetningu breiðfylkingarinnar

Vil­hjálmur Birgisson, formaður Starfs­greina­sam­bands­ins, sagði við mbl.is í gærkvöldi að SA hefði hafnað for­sendu­ákvæði um að hægt yrði að segja upp samn­ing­um ef verðbólga færi yfir 7% á samn­ings­tím­an­um og ef vext­ir lækkuðu ekki um 2,5%.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir slíkar fullyrðingar vera rangar. 

„Hér ríkir grundvallarmisskilningur á því á hverju steytir eða að minnsta kosti óreiða á framsetningu viðsemjenda okkar sem ég veit að gengur gott eitt til,“ segir Sigríður við mbl.is.

Samningurinn yrði uppsegjanlegur 2026 

Sigríður tekur fram að SA hafi verið skýr með að það væri eðlilegt að forsenduákvæði væru til staðar í langtímakjarasamningum.

SA hafi þá einnig lagt til endurskoðunarákvæði á árum tvö og þrjú.

„Á meðal þess sem við höfum lagt til í tillögum okkar að efnahagslega skynsamlegum forsenduákvæðum eru til að mynda sérstök uppbót taxta snemma á samningstímabilinu, til að verja sérstaklega þann hóp fólks sem ekki er á markaðslaunum ef efnahagsaðstæður gæfu tilefni til,“ bætir hún við.

Enn fremur hafi SA lagt til að samningurinn yrði uppsegjanlegur haustið 2026 ef mikil frávik yrðu frá væntingum, til dæmis ef verðbólga væri yfir 7% eða efra spábili í Þjóðhagsspá Seðlabankans.

„Hér fer því ekki saman hljóð og mynd í málflutningi viðsemjenda okkar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert