Sekt fyrir að leggja bíl á eignarlóð sinni

Þingholtsstræti 22 er í einkaeign, en eigendur samt sektaðir.
Þingholtsstræti 22 er í einkaeign, en eigendur samt sektaðir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrir tveimur árum bar svo við að Bílastæðasjóður fór að sekta eigendur hússins að Þingholtsstræti 22 í Reykjavík fyrir þá sök að leggja bílum sínum á bílastæðum á lóðinni við húsið. Þetta var gert, enda þótt um eignarlóð væri að ræða og þar með eign sem er varin af eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Einar Sigurjónsson og fjölskylda eru eigendur hússins og hafa lagt bílum sínum á einkastæði innan lóðarmarka, og eftir að sektir tóku að berast segist Einar hafa kvartað við Bílastæðasjóð yfir þeirri meðferð. Í svarbréfi frá lögmanni Bílastæðasjóðs segir að ákveðið hafi verið að þennan hluta lóðarinnar ætti að nýta til annars en fyrir bílastæði.

„Við sættum okkur ekki við þetta staðlaða svar, en þar sagði m.a. að við gætum snúið okkur til umboðsmanns Alþingis, eins og hann sé einhver dómari í málinu. Og það sem meira er, við vorum sektuð á grundvelli ákvæðis í umferðarlögum þar sem lagt er bann við að leggja á gangstétt,“ segir Einar í samtali við Morgunblaðið.

„Það er ekki aðeins að þeir sektuðu okkur fyrir að leggja bílum á eigin lóð, heldur segjast þeir vera búnir að breyta henni í gangstétt. Ég hafði samband við Borgarskipulag og sagði lögmaður skipulagssviðsins að ekkert deiliskipulag væri til af þessu svæði. Ég bar þetta svar undir Bílastæðasjóð sem svaraði því til að ég ætti að fá gögnin hjá skipulagsyfirvöldum sem hafa þau ekki. Það vísar því hver á annan,“ segir Einar.

„Hér er ekkert deiliskipulag, engin mælibréf, þetta er eignarlóð og ég tel að þeir séu komnir langt út fyrir sínar sektarheimildir,“ segir Einar og nefnir einnig að þessi hluti lóðarinnar hafi verið nýttur sem bílastæði umliðin 70 ár. Bílastæðasjóður fari heldur ekki með skipulagsvald og telur hann að háttsemi starfsmanna sjóðsins fari jafnframt í bága við stjórnsýslulög.

„Þetta virðist vera þurs með mörg höfuð sem við er að eiga,“ segir Einar og bætir því við að næsta skref sé að láta reyna á valdheimildir Bílastæðasjóðs, ellegar að beðist verði afsökunar, eins og gert var í sambærilegu máli íbúa við Vesturgötu sem hefur verið í fréttum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert