Alls voru 181 nemendur brautskráðir frá Háskólanum í Reykjavík við hátíðlega athöfn í Eldborg í Hörpu í gær.
Flestir útskrifuðust á tæknisviði eða 130, þar af 15 með meistaragráðu og tveir með doktorsgráðu. Frá samfélagssviði útskrifuðust 51, þar af 19 með meistaragráðu og einn með doktorspróf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá háskólanum.
Guðlaug Matthildur Jakobsdóttir, forstöðukona Alþjóðasviðs, setti athöfnina og tónlistarfólkið Katrín Halldóra Sigurðardóttir og Hjörtur Ingvi Jóhannsson fluttu ljúfa tóna. Ragnhildur Helgadóttir rektor ræddi meðal annars um gildi menntunar, vísinda og rannsókna í víðu samhengi í ávarpi sínu til útskriftarnema.
Rán Ægisdóttir, útskriftarnemi í BSc í tölvunarfræði, hélt ávarp fyrir hönd útskriftarnemenda þar sem hún minntist meðal annars á kraft menntunar og ábyrgðina sem henni fylgir og vitnaði í orð Nelson Mandela: „Menntun er öflugasta vopnið sem þú getur notað til að breyta heiminum.”
Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, afhenti verðlaun Viðskiptaráðs Íslands.