Gæludýrin halda á þeim hita

Sigrún Gabríela Laufdal og dóttir hennar Carys Freyja.
Sigrún Gabríela Laufdal og dóttir hennar Carys Freyja. mbl.is/Eyþór

„Það er bara mjög kalt,“ svarar Sigrún Gabríela Lövdal, íbúi á Suðurnesjum, spurð hvernig síðustu dagar hafi verið á heimili hennar en hún býr með maka, dóttur, tveimur hundum og ketti. Hún segir að fjölskyldan hafi þó enn sem komið er ekki klæðst útifötum heima hjá sér. 

Er blaðamaður mbl.is ræddi við þær mæðgur í Krossmóum voru þær þangað komnar til þess að kaupa ullarfatnað. 

„Af því að við erum að reyna nota ekki þvottavélar,“ segir Sigrún og bætir við að sem betur fer sé boðið upp á afslátt í ýmsum verslunum.  

Mæðgurnar að kaupa hlý föt.
Mæðgurnar að kaupa hlý föt. mbl.is/Eyþór

Ellefu gráða hiti

„Það er mjög kalt,“ segir hún og nefnir að er fjölskyldan vaknaði í morgun þá var ellefu gráða hiti inn í húsinu þeirra. 

„Þá hituðum við upp og nú eru 13 gráður. Við erum að hita aftur,“ segir hún og bætir við að fjölskyldan hafi verið heppin með að fá lánaðan gashitablásara.

„Við erum heppin að hafa gott fólk í kringum okkur, en ég meina síðan þurftum við að kaupa okkur gaskút og það kostaði okkur 20 þúsund. Þannig að þetta er alveg kostnaðarsamt fyrir fólk.“ 

Mætir til vinnu á morgun

Þá nefnir hún að allir séu að gera sig tilbúna til að mæta til vinnu á morgun. Sigrún vinnur sjálf á leikskóla sem var lokaður á föstudag. 

Hún segir að það hafi gengið vel að hita rýmin í leikskólanum, „en maður veit ekki hvernig þetta er. Við sjáum bara á morgun“. 

Sefur fólk alveg á næturnar?

„Ég hef allavega heyrt að fólki er ísskalt og sofi ekki. Ég er allavega með tvo hunda og einn kött sem að halda á okkur hita. Þannig að við erum mjög heppin með það,“ segir hún og bætir við að fjölskyldan vakni þó alveg á næturnar stressuð um að það sé of kalt inni í húsinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert