Gular viðvaranir taka gildi í kvöld

Vindaspá klukkan 7 í fyrramálið.
Vindaspá klukkan 7 í fyrramálið. Kort/Veðurstofa Íslands

Veðurstofa Íslands hefur gefið út gular viðvaranir vegna veðurs víða um land. Viðvaranirnar taka gildi í kvöld og falla úr gildi annað kvöld.

Klukkan 22 í kvöld tekur gildi viðvörun á Suðausturlandi og má búast við norðaustan átt 15-23 m/s, en hvassast verður í Öræfum.

Á miðnætti tekur gildi viðvörun á Ströndum og Norðurlandi vestra þar sem búast má við norðaustan hríð 13-20 m/s með snjókomu og skafrenningi, en hvassast verður austan til. 

Klukkan þrjú og fjögur í nótt taka síðan í gildi viðvaranir á Vestfjörðum og Breiðafirði þar sem má einnig búast við 13-20 m/s með snjókomu og skafrenningi. 

Ganga úr gildi síðdegis á morgun

Klukkan sex í fyrramálið tekur síðan í gildi viðvörun á Faxaflóa. Þar má einnig búast við 13-20 m/s og skafrenningi. Hvassast verður á Snæfellsnesi. 

Rétt fyrir klukkan tíu í fyrramálið tekur gildi viðvörun á Norðurlandi eystra. Þar verður norðaustan átt 13-18 m/s með snjókomu og skafrenningi, en hvassast verður austan til. 

Frá klukkan 15 á morgun og til miðnættis falla viðvaranirnar síðan úr gildi hver af annarri.

Búast má við lélegum akstursskilyrðum víða um land, einkum á fjallvegum og þá er varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind að vera á ferð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka