Leit að jarðhita hefst á Álftanesi

Ekki stendur til að leita að heitu vatni í nágrenni …
Ekki stendur til að leita að heitu vatni í nágrenni Bessastaða. mbl.is/Kristinn Magnússon

Veitur munu hefja jarðhitaleit á Álftanesi í næstu viku. Boraðar verða níu rannsóknarholur.

Vísbendingar eru um að á Álftanesi sé að finna jarðhita nýtanlegan til húshitunar og vilja Veitur kanna það nánar.

Borun hverrar holu tekur að jafnaði einn til þrjá daga og leitast verður við að halda ónæði í lágmarki og tryggja öryggi, að því er fram kemur í tilkynningu á heimasíðu fyrirtækisins.

Þetta eru grannar holur sem ná niður á 60 til 100 metra dýpi. Þær eru boraðar með léttum bortækjum á beltum, svo að ekki er þörf á vegagerð eða sérstökum borplönum.

Einungis er um rannsóknir að ræða á þessu stigi málsins og niðurstöður þeirra ráða mestu um framhaldið og hvenær það yrði.

Verkefnið er unnið í samráði við landeigendur á svæðinu, að því er fram kemur á heimasíðu Veitna. Á heimasíðunni má sjá kort með staðsetningu borholanna.

Samkvæmt kortinu stendur ekki til að leita jarðhita í nágrenni forsetasetursins á Bessastöðum.

Veitur reka hitaveitu sem þjónar stærstum hluta höfuðborgarsvæðisins. Eftirspurn eftir heitu vatni eykst stöðugt í takt við fjölgun íbúa og aukningu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Heita vatnið kemur í dag frá jarðvarmavirkjunum ON á Hellisheiði og Nesjavöllum og fjórum lághitasvæðum innan höfuðborgarsvæðisins.

„Við leitum nú að viðbótar lághitaauðlindum á svæðinu til að auka aflgetu hitaveitunnar og bæta rekstraröryggi hennar,“ segja Veitur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert