Grindvíkingurinn Sigmar Júlíus Eðvarðsson segir skelfilegt að hugsa til þess að hann muni mögulega aldrei snúa aftur til bæjarins.
Sigmar er fæddur og uppalinn í Grindavík og hefur búið þar alla tíð. Þar hefur hann einnig alið upp þrjú börn sín og tíu barnabörn.
Sigmar ræddi við blaðamann mbl.is er hann var að ganga frá húsi sínu í bænum í dag.
Líkt og fram hefur komið mun ríkissjóður bjóðast til að kaupa íbúðarhúsnæði í eigu fólks í Grindavík og taka yfir þau íbúðalán sem á því hvíla. Miðað er við 95% brunabótamati ársins 2024 við kaupverðið.
„Það er í sjálfu sér ágætt en það er svo sem ekkert verð fyrir þessa eign sem brunabótamatið er,“ segir Sigmar um aðgerðirnar.
„Þau eru að gefa kost á uppkaupum aftur til baka, á sama verði og ég sel, eftir tvö ár, sem er alltof stuttur tími, það þarf að lengja hann. Ef ég sel þeim húsið þá þarf ég að hreinsa húsið allt út, sem er í sjálfu sér allt í lagi, en ég hefði viljað geta tekið húsið mitt í fóstur og passað upp á það ef ég ætla mér að koma aftur.“
Hann bendir einnig á þá óvissu sem ríkir um hvort einhver þjónusta verði í Grindavík eftir tvö ár, skólastarf, verslanir og annað slíkt.
„Eins og staðan er núna þá stefnir þetta bara í draugabæ. Það kannski viljum við ekki.“
Sigmar rekur fyrirtækin HP Gámar og HP Flutningar í Grindavík og hefur orðið af miklum fjármunum eftir að bærinn var rýmdur í nóvember. Húsnæði fyrirtækja eru ekki huti af aðgerðunum.
„Við vitum ekkert hvað verður með þetta, ef bærinn leggst af.“