Sterkar vísbendingar benda til þess að landris sé hafið á Reykjanesskaganum. Aftur á móti hafa aðeins þrír skjálftar, allir undir 1 að stærð, mælst við kvikuganginn við Grindavík frá miðnætti.
Veðurstofan hefur lýst eldgosinu sem hófst 8. febrúar á milli Sundhnúks og Stóra-Skógsfells sem yfirstöðnu.
Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að landris virðist hafið samkvæmt GPS-mælingum, þó ekki sé hægt að slá því föstu alveg strax.
„Við viljum samt bíða og fá aðeins fleiri [mæli]punkta til að geta staðfest það alveg,“ segir Bryndís, sem er síðan innt eftir því hvort mælingarnar teljist sterkar vísbendingar um landris. Því svarar hún játandi.
Jarðeðlisfræðingurinn Benedikt Gunnar Ófeigsson, sem er fagstóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, sagði í viðtali við Morgunblaðið á föstudag að land væri mjög líklega tekið að rísa á ný. Sú sé orðin venjan í eldgosunum á Reykjanesskaganum.
Eldfjallafræðingurinn Þorvaldur Þórðarson sagði þá einnig við mbl.is að teikn væru um að landris væri hafið á ný, þó ekki væri hægt að staðfesta það.
„Í kvikuganginum sjálfum hefur verið mjög lítil virkni síðustu tvo, þrjá daga,“ segir Bryndís.
„En við höfum verið að fá skjálfta víðar á Reykjanesskaganum, sem þarf ekki að tengjast þessu endilega en getur verið bakgrunnsvirkni.“
Þá segir hún að aðeins þrír skjálftar hafi mælst í kvikuganginum við Grindavík frá miðnætti. Allir voru þeir undir 1 að stærð.