Um 100 manns vinna að nýrri hjáveitulögn

Kristinn Harðarson, fram­kvæmda­stjóri fram­leiðslu hjá HS Orku.
Kristinn Harðarson, fram­kvæmda­stjóri fram­leiðslu hjá HS Orku. mbl.is/Eyþór

Unnið er dag og nótt að framkvæmdum við nýja hjáveitulögn meðfram Njarðvíkuræð, ríflega 50 manns á daginn og aðrir 50 yfir nóttina. Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri framleiðslu hjá HS Orku, segir framkvæmdirnar ganga mjög vel en að ýmislegt gæti enn komið upp á.

Nýja hjáveitulögnin, sem verður um 470-480 metrar að lengd og um 80 tonn, verður tilbúin á næstu dögum að sögn Kristins. 

„Við vorum búnir að vera að undirbúa það að það kæmi hrauntunga hér niður og [búnir] grafa niður mjög öfluga heitavatnslögn og tengja hana inn í Njarðvíkuræðina. En hún engu að síður skemmdist þegar hraunið rann yfir,“ segir Kristinn í samtali við mbl.is. Hann útskýrir að hraunið hafi náð náð ýta jarðvegsfyllingu í burtu og komast að lögninni.

Hann bendir á að það hafi verið mikil vonbrigði að missa heitavatnsrennslið til Reykjanesbæjar. Framkvæmdir standa nú yfir við að leggja nýja hjáveitulögn og Kristinn segir það ganga mjög vel.

Það rýkur úr nýja veginum sem lagður hefur verið yfir …
Það rýkur úr nýja veginum sem lagður hefur verið yfir hraunið sem fór yfir Grindavíkurveg á fimmtudag. mbl.is/Eyþór

Vonast til að styttra verði í heitt vatn

Mikið kuldaveður hefur verið á Suðurnesjum síðustu daga, jafnvel tvegga stafa frosttölur. Kristinn segir það þó ekki hafa haft mikil áhrif.

„Það var auðvitað óþægilegt þegar mesti frostkaflinn var en menn eru vel klæddir og vel búnir,“ segir hann.

Stjórnvöld hafa sagst gera ráð fyr­ir því að eft­ir viku verði heitt vatn komið í eðli­legt horf í sveit­ar­félögum á Reykjanesskaga.

Spurður að því hvort velgengni framkvæmdanna leiði nákvæmari verklok í ljós, svarar Kristinn: „Við erum að vonast til að það verði aðeins styttri tími en það er samt ýmislegt sem getur komið upp á.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert