Vöknuðu í 8-9 gráða hita

Guðrún Hanna Jónsdóttir og Sara Lind Kristjánsdóttir.
Guðrún Hanna Jónsdóttir og Sara Lind Kristjánsdóttir. mbl.is/Eyþór

Guðrún Hanna Jónsdóttir og Sara Lind Kristjánsdóttir vöknuðu við átta eða níu gráða hita í gærmorgun. en þær eru vinkonur sem búa nú saman með foreldrum og bræðrum Söru á Suðurnesjum. 

Blaðamaður mbl.is ræddi við þær vinkonurnar í Kross­mó­um í Reykjanesbæ í dag. 

Í gær fékk fjölskyldan hitara sem er nú færður á milli herbergja. 

„Við reynum að halda okkur saman,“ segir Sara. 

Fyrir utan Krossmóa í Reykjanesbæ.
Fyrir utan Krossmóa í Reykjanesbæ. mbl.is/Eyþór

Þykkar peysur og úlpur

Heimilisfólkið er í þykkum peysum og úlpum inni.

„Svo fer maður bara í bæinn til þess að fara í sturtu,“ segir Guðrún.

„Þetta er pínu ástand,“ segir Sara.

Hvernig sofið þið?

„Við höfum sofið í flísnáttfötum. Með teppi og tvær sængur,“ segir Sara. 

Og nærðu alveg að sofa vel?

„Já, já. Við bara kúrum og höldum á okkur hita. Maður vaknar stundum og þá náttúrulega vill maður ekkert fara fram úr af því að það er bara ískalt.“

Kerti og spil

Í gærmorgun voru átta eða níu gráður þegar þær vöknuðu, en nú er hitinn um 22 gráður í rýminu sem fjölskyldan reynir helst að hita með ofninum. Þar hjúfra þau sig saman og horfa á sjónvarpið sem tekur ekki of mikið rafmagn. 

„Annars eru það bara kerti og spil,“ segja þær og nefna að þannig hafi föstudagskvöldinu verið eytt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert