Hundraðasti lyfjaskammtarinn hefur nú verið tekinn í notkun í Reykjavík en í heild hafa 150 einstaklingar nýtt skammtarana í lengri eða skemmri tíma.
Það var Velferðarsmiðja Reykjavíkur sem hóf innleiðingu á lyfjaskömmturum, í samstarfi við velferðartæknideild Icepharma, í október árið 2023 en þá voru 25 lyfjaskammtarar í notkun.
Segir í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg að hin 97 ára Andrea Kr. Þorleifsdóttir hafi fengið lyfjaskammtarann fyrir um það bil tveimur vikum og hafi ekki misst úr lyfjagjöf síðan enda að eigin sögn hæstánægð með skammtarann.
„Mér líkar bara ljómandi vel við lyfjaskammtarann og eins og ég vissi að þá þurfti ég á honum að halda. Hann minnir mig á lyfin en ég gleymdi þeim svo oft um miðjan daginn. Þá er ég ýmist að horfa á sjónvarpið, lesa eða með heimsóknir. Ég er mjög þakklát fyrir þetta tæki, það talar við mig og ég fer bara alveg eftir því sem það segir,“ er haft eftir Andreu í tilkynningunni en hún hvetur jafnframt aðra til að þiggja þjónustuna.
Þá er lyfjaskammtararnir vaktaðir af starfsfólki skjávers Velferðartæknismiðjunnar alla daga ársins og er það starfsfólk í heimaþjónustu sem sér um áfyllingar og viðbrögð við tilkynningum.
Ef notandi lyfjaskammtara missir úr lyfjagjöf fær starfsfólk tilkynningu og getur þá brugðist hratt við.
„Lyfjaskammtararnir eru ört vaxandi þjónusta en daglega berast heimaþjónustu Reykjavíkur nýjar umsóknir um þá. Mikill ávinningur þykir af notkun lyfjaskammtara og aukið öryggi fyrir notendur sem gleyma síður lyfjum sínum. Þá er fólk ekki lengur háð því að bíða eftir að starfsmaður heimaþjónustu komi og gefi þeim lyf. Ávinningur er einnig fyrir starfsfólk í heimaþjónustu með aukinni skilvirkni.“