Hjalti Einarsson, vélvirki og stofnandi VHE, lést á líknardeildinni í Kópavogi 3. febrúar sl., 85 ára að aldri.
Hjalti fæddist á Siglufirði 11. apríl 1938 og ólst upp á Reyðará á Siglunesi. Var hann elstur fjögurra barna þeirra hjóna Einars Ásgrímssonar, útvegsbónda á Reyðará, og Unnar Stefánsdóttur húsfreyju, frá Hvammi í Hjaltadal. Hjalti gekk í barnaskólann á Siglufirði 1948-1953, var í Reykholti í Borgarfirði 1953-1956 og tók þar landspróf og gagnfræðapróf. Hann fór svo í Iðnskólann á Siglufirði 1957 og hóf nám í vélvirkjun, en vann ávallt með skólanum við sjómennsku og fleiri störf. Hann kláraði iðnskólann 1958 og fór svo í vélstjórnarnám í Vélskólanum á Akureyri 1959 og útskrifaðist með hæstu einkunn það vor. Hann tók síðan sveinspróf í vélvirkjun 1969 og síðar meistararéttindi.
Hjalti fluttist í Hafnarfjörð árið 1963 og réði sig til vinnu í Vélsmiðju Hafnarfjarðar. Öðlaðist hann meistararéttindi í vélvirkjun við Iðnskólann í Hafnarfirði. Vann hjá Boga Diesel verkstæði frá 1969 til 1971, en þá stofnaði hann ásamt eiginkonu sinni, Kristjönu G. Jóhannesdóttur, f. 1941, Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar. Fyrirtækið var fyrst til húsa í bílskúr á lóð þeirra hjóna við Suðurgötu 73 í Hafnarfirði en 10 árum eftir stofnun fluttist starfsemin að Melabraut. Fyrstu árin voru starfsmenn fáir en með árunum fjölgaði þeim verulega og voru hátt í 500 er mest lét, að dótturfélögum meðtöldum.
Hjalti dró sig út úr rekstri VHE í byrjun árs 1998 og börn þeirra Kristjönu tóku við rekstrinum. Fyrirtækið varð eitt hið umsvifamesta í þjónustu á sviði vélaviðgerða og vélsmíði, ekki síst fyrir áliðnaðinn og aðra stóriðju, en starfaði einnig í byggingariðnaði.
Hjalti var prófdómari til margra ára í Iðnskólanum í Hafnarfirði og árið 2016 var hann valinn iðnaðarmaður ársins fyrir frumkvöðlastarf sitt í vélvirkjanámi.
Hjalti og Kristjana, sem lifir mann sinn, gengu í hjónaband í desember 1963. Þau eignuðust þrjú börn. Þau eru Unnar Steinn, f. 1964, Hanna Rúna, f. 1967, og Einar Þór, f. 1977. Barnabörnin eru 11 og langafabörnin fjögur, og eitt á leiðinni.
Útför Hjalta fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju 21. febrúar nk. kl. 13.