Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segist ekki sjá annað en að landris sé hafið á nýjan leik við Svartsengi og þar með gæti farið að draga aftur til tíðinda á Reykjanesskaganum eftir um þrjár vikur.
„Allir mælipunktarnir hafa farið upp á við og rishraðinn virðist vera aðeins meiri en verið hefur. Það er oft þannig í byrjun en svo hægir á því. Landrisið í Svartsengi er að slá í um 10 millimetra á dag og mér finnst mjög líklegt að það dragi aftur til tíðinda eftir um það bil þrjár vikur,“ segir Þorvaldur við mbl.is.
Honum finnst sennilegast að það gjósi með sambærilegum hætti og í síðustu viku og gosstaðurinn verði á svipuðum slóðum.
„Það er ekki nema að við förum að sjá frekari færslu til vesturs. Ef það gerist þá aukast líkurnar á því að það færist meiri virkni í Eldvörpin og í svæðin vestan við Grindavík þar sem fiskeldið er. Það gæti farið að hreyfast eitthvað á því svæði. Menn ættu því að hafa auga með því og kannski ekki skynsamlegt að hafa margt fólk inn á því svæði.“
Þótt gosið í síðustu viku hafi fjarað út á tveimur dögum olli það gífurlegum skemmdum á innviðum en hraun fór meðal annars yfir Grindavíkurveginn og tók Njarðvíkurlögnina í sundur með þeim afleiðingum að heitavatnslaust varð á öllum Suðurnesjum.
„Gosið var aflmikið í byrjun og framleiðnin hefur hugsanlega náð allt upp í 400 rúmmetra á sekúndu. Heildarrúmmál hraunsins er um 15 milljónir rúmmetrar og þegar það er búið að taka tillit til holrýmis þá er þetta eitthvað á bilinu 9-10 milljónir rúmmetrar,“ segir Þorvaldur við mbl.is
Aðspurður hvort meira kvikuflæði hafi verið meira í þessu gosi samanber síðustu gos segir Þorvaldur:
„Nei það er svipað því sem í toppnum í gosinu 18. desember. Mér sýnist það hafa dottið niður hraðar en í gosinu 18. desember þó svo að framleiðnin hafi haldið áfram eitthvað aðeins lengur. Fyrstu sex klukkutímana var framleiðnin mikil í þessu gosi sem skýrir það hvers vegna hraunið fór svona langt. Hún datt svo hratt niður og var orðin skugginn að sjálfum sér um kvöldið,“ segir Þorvaldur.
Hann segir að þetta hafi verið stysta gosið af þeim sex sem hafa komið upp á Reykjanesskaganum frá því í mars 2020 en sé það gos sem hafi valdið mestum skemmdum.