„Sko. Ég held ég yrði fínn forseti,“ segir Jón Gnarr, leikari, rithöfundur, fyrrverandi borgarstjóri og leiðtogi hins eftirminnilega Besta flokks, í samtali við Akureyrarmiðilinn Akureyri.net á rölti um Kjarnaskóg með hundinum Klaka.
Fer Jón víða í viðtalinu en kemur undir lokin að því að komið hafi verið að máli við hann um að bjóða sig fram sem bæjarstjóra á Akureyri, en tekur strax fram að hann telji að fólk sæi eftir því.
„Það fyrsta sem ég myndi gera væri að takmarka bílaumferð og hækka stöðumælagjöld,“ segir borgarstjórinn fyrrverandi án þess að taka afstöðu til þess hvort slíkt félli ekki hugsanlega í kramið hjá norðlenskum kjósendum.
Hvað forsetaframboð áhrærir kveður Jón fólk ekki síður hafa ámálgað slíkt við hann.
„Á hverjum degi fæ ég tölvupóst eða skilaboð eða tögg á samfélagsmiðlum varðandi þetta. Ég hafði aldrei pælt í því að vera forseti, en árið 2016, þegar Guðni var kosinn fyrst var fólk að stinga upp á mér og ég tók þetta alvarlega. Ræddi það við konuna mína. Þá komst ég að þeirri niðurstöðu að mig langaði ekki að fara í framboð. Núna kemur þetta aftur upp og ég get sagt að ég er að hugsa þetta af alvöru,“ segir Jón hispurslaust við blaðamann Akureyri.net.
Hann slær þó þann varnagla að hann sé með „hausinn alveg á kafi í leikverkinu hérna fyrir norðan“ og vilji klára frumsýningu í lok mánaðarins áður en hann ákveði sig endanlega.
„[...] þá er ég ekkert viss um að það sé almennt það sem fólk í landinu er að pæla,“ segir Jón um þá staðreynd að þótt fylgjendur hans á samfélagsmiðlum vilji hann á Bessastaði sé það bara ein hlið málsins. „Ég tek því bara sem hæfilegri vísbendingu,“ klykkir hann út við Akureyri.net.