Eins og reiknað hafði verið með eru að koma fram lekar í dreifikerfi hitaveitunnar á Suðurnesjum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá HS Veitum en heitt vatn er nú komið á hluta á heimila á Reykjanesskaganum. Starfsmenn HS Orku og HS Veitna hafa unnið hörðum höndum síðastliðinn sólarhring við að koma nýrri hjáveitulögn Njarðvíkuræðarinnar í gagnið.
„Við eigum von á frekari bilunum á lögnum í dag og næstu daga og reynum eftir bestu getu að senda SMS upplýsingar til viðskiptavina þar sem við höfum þurft að loka fyrir heitt vatn,“ segir í tilkynningunni.
Þar segir einnig að það muni taka talsverðan tíma til að ná upp þrýsting þannig að allir fái vatn en ekki er kominn fullur þrýstingur á kerfið.
Þjónustuver HS Veitna verður opið til kl 22 í kvöld og tekur á móti tilkynningum í síma 422-5200 eða á netfangið hsveitur@hsveitur.is.