Lögnin átti að fara í hengibrú yfir hraunið

Katrín Jakobsdóttir kynnti sér aðstæður.
Katrín Jakobsdóttir kynnti sér aðstæður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eftir að hjáveitulögnin meðfram Njarðvíkuræð lenti undir hrauni og fór í sundur voru hugmyndir uppi hjá HS Orku um að hengja nýja lögn í hengibrú yfir hraunið með kranabíla sitt hvorum megin.

Þetta kom fram á stuttum kynningarfundi sem var haldinn í orkuverinu í Svartsengi fyrr í dag vegna framkvæmdanna.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var á meðal gesta en hún hefur verið á ferðalagi um Reykjanesskagann í dag vegna jarðhræringanna á svæðinu. 

Frá fundinum í orkuverinu í Svartsengi.
Frá fundinum í orkuverinu í Svartsengi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á fundinum fór Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri framleiðslu HS Orku, yfir þau vandamál sem fyrirtækið stóð frammi fyrir eftir að lögnin fór í sundur.

Hann sagði það hafa einfaldað verkefnið gríðarlega þegar það tókst að búa til veg yfir hraunið. Í framhaldinu lagði fyrirtækið „þessa brjáluðu hugmynd um hengibrúna til hliðar”.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Vonbrigðin gríðarleg

Hann sagði smíði nýju hjáveitulagnarinnar engu að síður hafa verið mjög tímafreka og erfiða. 

Kristinn lýsti einnig vinnunni við heitavatnslögnina sem átti að tengja við Njarðvíkuræðina þar sem starfsfólk var í kappi við tímann, allt þangað til hraunið bankaði á dyrnar.

Hann sagði hraunið hafa verið afar þunnfljótandi og að það hefði skriðið mjög hratt áfram. Vonbrigðin hefðu verið gríðarleg þegar æðin brast, enda mikil fjárfesting í henni.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Á fundinum talaði Kristinn einnig um að það hefði verið ótrúlegt að háspennumöstur hefðu ekki farið undir hraun, vegna þess að hraunið var nánast jafnhátt og jarðvegsfylling sem hafði verið útbúin við möstrin.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert