Myndskeið: Mótmælendum heitt í hamsi

„Hér er allt enn í fullum gangi og búið að vera að mótmæla síðan klukkan þrjú,“ segir Iðunn Andrésdóttir, blaðamaður mbl.is, sem var á vettvangi mótmæla við Alþingishúsið þegar hún ræddi við mbl.is nú fyrir skemmstu.

Komu íslenskir sem palestínskir mótmælendur saman á Austurvelli til að mótmæla aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda í málefnum dvalarleyfishafa sem staddir eru í stríðsátökunum á Gasasvæðinu.

Krefjast mótmælendur þess að stjórnvöld uppfylli það loforð sitt að sameina fjölskyldur dvalarleyfishafa sem eiga ættingja hérlendis.

Mótmælendur á Austurvelli snemma í mótmælunum. Iðunn Andrésdóttir blaðamaður segir …
Mótmælendur á Austurvelli snemma í mótmælunum. Iðunn Andrésdóttir blaðamaður segir um hundrað manns hafa mótmæli við Alþingi um það leyti er hún fór af vettvangi tæpum tveimur tímum eftir að mótmælin hófust. mbl.is/Arnþór

Mikið um hróp og köll

Kveður Iðunn mótmælin hafa verið friðsamleg og um tug lögregluþjóna hafa verið á vettvangi. Mótmælendur, sem hafi verið nálægt hundrað manns, hafi gengið umhverfis Alþingishúsið og við hliðið inn í garðinn aftan við þinghúsið hafi nokkrir mótmælenda sest niður.

„Þá tók lögreglan að veifa úðabrúsum með gasi,“ segir Iðunn frá og getur sér til að lögreglu hafi ekki litist á að mótmælendur hafi komið of nærri gluggum þinghússins í þröngu portinu við garðshliðið.

Segir Iðunn töluverðan hita hafa verið í mótmælendum á meðan hún var enn á svæðinu og mikið um hróp og köll þar sem utanríkisráðherra hafi oftar en ekki verið sá embættismaður er skotið var til. Þá var eggjum kastað í Alþingishúsið.

Palestínsku mótmælendurnir hafi augljóslega verið í mikilli geðshræringu yfir örlögum landa sinna og ættingja og margir verið grátandi eða gráti næst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert