Rúmar 40 mínútur tók að rýma Bláa lónið

Um 150 manns voru í byggingum Bláa lónsins í Svartsengi þegar gos hófst í liðinni viku. Rúmar 40 mínútur tók að rýma lónið og allir komnir á rýmingarpósta þegar gosið hófst.

Þetta upplýsir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu hjá Bláa lóninu í viðtali í Spursmálum.

Bláa lónið hefur þurft að laga starfsemi sína að gjörbreyttum …
Bláa lónið hefur þurft að laga starfsemi sína að gjörbreyttum veruleika. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Beintengd við almannavarnir

Bendir hún á að allir verkferlar fyrirtækisins taki nú mið af nýjum veruleika.

Starfsfólk sé beintengt við Tetra-kerfi almannavarna og þegar grunur vaknar um að jarðhræringar séu að hefjast sé gripið til rýmingaráætlana.

Pökkuðu niður

Um 40 mínútur tók að rýma hótel fyrirtækisins aðfaranótt fimmtudagsins og segir Helga að þarna hafi verið um að ræða svokallaða „mjúka“ rýmingu þar sem fólk fær tækifæri til þess að pakka og taka föggur sínar með af svæðinu. Ef hætta er talin meiri er hægt að rýma á mun skemmri tíma.

Margir eru á eigin bílum á svæðinu en fyrirtækið hefur sömuleiðis tiltækar rútur á svæðinu þannig að auðvelt reynist að koma fólk fljótt og vel í burtu.

Loka og opna hratt

Í viðtalinu bendir Helga á að fyrirtækinu hafi tekist vel að laga sig að þessum breytta veruleika. Þannig séu verkferlar þannig hannaðir að fyrirtækið geti lokað starfsemi sinni hratt, en opnað sömuleiðis fljótt og vel.

Mikilvægt sé að það gangi í báðar áttir.

Fréttin hefur verið leiðrétt:

Í upphaflegri fyrirsögn stóð: „Rýmdu lónið áður en gjósa tók“. Í fréttinni var einnig fullyrt að allir gestir hótelsins hefðu verið farnir af svæðinu þegar gjósa tók. Þar var um oftúlkun blaðamanns á orðum framkvæmdastjóra hjá Bláa lóninu að ræða.

Hið rétta er að fólk var komið á svokallaða rýmingarpósta á svæðinu og tilbúið til brottfarar rúmum 40 mínútum eftir að rýming var tilkynnt.

Að sögn Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra hjá fyrirtækinu, byggðu ummæli hennar á þeim upplýsingum sem hún hafði á þeim tíma. Beðist er velvirðingar á þessu.

Viðtalið við Helgu má sjá í spilaranum hér fyrir neðan. Ásamt henni mætti í þáttinn Ari Trausti Guðmundsson jarðvísindamaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert