Samkomulag um laun þegar upp úr slitnaði

Í tilkynningu sem SA hefur sent frá sér segir að …
Í tilkynningu sem SA hefur sent frá sér segir að mikilvægt sé að forsenduákvæði kjarasamninga vegi ekki að sjálfstæði Seðlabankans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkomulag var í höfn um launaliðinn þegar slitnaði upp úr samningaviðræðum breiðfylkingar verkalýðsfélaga á almenna vinnumarkaðinum og Samtaka atvinnulífsins, SA, sl. föstudag. Kvað það á um launahækkun að fjárhæð 23.750 krónur til þeirra sem þiggja taxtalaun undir u.þ.b. 730 þúsund krónum á mánuði.

Laun annarra áttu að hækka um 3,25%. Enginn átti að fá minni hækkun launa en sem nemur fyrrgreindri fjárhæð. Þetta upplýsir Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins í samtali við Morgunblaðið.

Það var hins vegar aðferðafræðin sem strandaði á. Þau Sigríði Margréti Oddsdóttur framkvæmdastjóra SA og Vilhjálm greinir á um ástæður þess að upp úr slitnaði. Þannig segir Vilhjálmur að SA hafi hafnað því að hægt yrði að segja upp samningi eftir 14 til 15 mánuði ef verðbólga færi yfir 7% og ef vextir lækkuðu ekki um 2,5%.

Sigríður Margrét sagði það aftur á móti rangt í samtali við mbl.is, SA hefði verið skýrt með að eðlilegt væri að hafa forsenduákvæði í kjarasamningi til fjögurra ára og að slík ákvæði myndu virkjast á öðru og þriðja ári.

Allir verði að taka þátt

Í tilkynningu sem SA hefur sent frá sér segir að mikilvægt sé að forsenduákvæði kjarasamninga vegi ekki að sjálfstæði Seðlabankans.

Vilhjálmur segir að á engan hátt sé verið að vega að sjálfstæði Seðlabankans í vaxtaákvörðunum með forsenduákvæði í kjarasamningi, þ.e. að samningur verði laus hafi vextir ekki lækkað úr 9,25% í 6,75% á næstu 14 til 15 mánuðum.

„Með þessu erum við að segja að til þess að það takist verða allir að taka þátt, meðal annars ríkið og sveitarfélögin. Seðlabankinn lítur á þenslu á vinnumarkaði og marga aðra þætti, en til þess að markmiðin náist verða allir að spila með. Það er það sem við erum fyrst og fremst að segja með því að slá þennan varnagla. Seðlabankinn er algerlega sjálfstæður og horfir bara á sín markmið,“ segir Vilhjálmur Birgisson.

Forysta breiðfylkingarinnar mun hittast á fundi í dag þar sem farið verður yfir stöðuna. Ekki náðist í Sigríði Margréti við vinnslu fréttarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert