„Það er hreinlega allt á hvolfi“

Pípulagningarmeistarinn Benedikt G. Jónsson sem rekur fyrirtækið Benni pípari.
Pípulagningarmeistarinn Benedikt G. Jónsson sem rekur fyrirtækið Benni pípari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Pípulagningarmeistarinn Benedikt G. Jónsson, sem rekur fyrirtækið Benni pípari, hefur svo sannarlega haft í nógu að snúast undanfarna daga og vikur. Hann segir að það sé hreinlega allt á hvolfi.

„Það hafa um tíu manns á okkar vegum verið í vinnu alla daga og öll kvöld en nú heyrist mér að menn séu aðeins farnir að róast í stressinu eftir að heitt vatn fór að streyma í tankana á Fitjum. Ég er virkilega ánægður með hversu vel gekk að koma nýju hjáveitulögninni saman. Það kom mér á óvart hversu hratt þetta gekk. Þetta eru hörkunaglar,“ segir Benedikt við mbl.is.

Mikið frosið í snjóbræðslulögnum

Hann segir að ekki hafi orðið beint mikið tjón eð það hafi verið mikið frosið í snjóbræðslulögnum. Eftir að Njarðvíkurlögnin fór í sundur fyrir helgina segir Benedikt að vinnan hafi aðallega verið fólgin í að frostverja snjóbræðslulagnir og inntök á öllum Suðurnesjunum. Benedikt segist hafa tekið á móti 600 símtölum frá því hraun rann yfir lögnina, auk allra tölvupóstana og verkbeiðnir sem hafa borist inn á vefsíðu fyrirtækisins.

„Við höfum verið með mannskap í Reykjanesbæ, Sandgerði, Garði og í Vogunum. Nú skilst mér að það sé komin hersveit af pípurum úr bænum til að aðstoða hitaveituna að hleypa vatninu á. Þeir hafa að vísu ekkert komið að því sem við höfum verið að gera,“ segir Benedikt.

Hann segir að fólk vilji fá varakerfi á hitakerfin hjá sér og nú séu hans menn meðal annars að vinna við að koma fyrir í neysluvatnstangi og rafmagnshitatúpu fyrir vatn og leiðslur í gistiheimili. „Þetta er bara af því að menn eru hættir að treysta þessu. Við vitum ekkert hvert hraunið fer næst,“ segir Benedikt.

Ef fólki lendir í tjóni. Fær það tjónið bætt frá sínum tryggingarfélögum?

„Tryggingarnar bæta skemmdirnar sem verða af vatnstjóni en þær bæta ekki lagnirnar. Ef ég tek sem dæmi um snjóbræðslukerfi sem skemmist þá er það alfarið húseigendanna að standa straum að kostnaði við þær.“

Mesta hætta á bilunum þegar heita vatninu er hleypt á

Hann segir að nú byrji önnur törn í kjölfar þess þegar vatninu er hleypt á.

„Þá er mesta hættan við að bilanir komi í ljós. Það koma oft lekar við vindhöggin við grindurnar og ef  einver lögn hefur frosið og gæti hafa sprungið þá verður fólk ekkert var við það fyrr en hitinn kemur á. Það þarf því að fylgjast vel með,“ segir Benedikt.

Benedikt segir fyrirtæki sitt hafa sinnt fjölmörgum verkefnum í Grindavík síðustu vikurnar og hann segist ekki sjá fyrir endann á þeim verkefnum.

„Í Grindavík er bara verið að einblína á að halda hita á húsum en stór hluti af hverfum er ekki kominn með hita og þá er ekkert kalt vatn komi á bæinn ennþá.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka