„Þetta getur ekki verið veruleikinn“

Hrannar getur séð fyrir sér að snúa aftur til Grindavíkur …
Hrannar getur séð fyrir sér að snúa aftur til Grindavíkur einn daginn. mbl.is/Eyþór

„Ætli þetta sé ekki um tíunda ferðin,“ segir Hrannar Baldursson, íbúi í Grindavík, spurður hvernig gangi að flytja búslóðina úr Grindavík.

Blaðamaður mbl.is náði tali af honum í gær á meðan hann pakkaði niður.

„Búslóðin er komin í geymslu í flugskýli í Keflavík, í geymslu hjá foreldrum mínum og í íbúð sem ég er með í skammtímaleigu,“ segir Hrannar.

Eðlilegt að fá 100% af brunabótamati

„Við kaupum væntanlega eitthvað annað þegar við erum borguð út,“ segir Hrannar, spurður hvað framtíðin beri í skauti sér.

Hrannar segir skiptar skoðanir vera um þær aðgerðir stjórnvalda að kaupa húsnæði Grindvíkinga. „Fólk er ekki að skilja af hverju það fær 95% af brunabótamati, 100% væri eðlilegt finnst fólki.“

Hann nefnir einnig að forkaupsrétturinn gildi aðeins í tvö ár frá kaupdegi. „Okkur finnst flestum að hann ætti að vera í eitt til tvö ár eftir að atburðunum lýkur.“

Hrannar segir einhverja Grindvíkinga vilja flytja lánin sín. „Það er fullt af fólki sem er með fryst lán og vill flytja yfir. Það á að passa að kostnaðurinn verði sem minnstur.“

mbl.is/Eyþór

Aðallega þreyttur í baki og hnjám

„Það gæti alveg verið, ef bæjarfélagið kemur til baka og atburðunum lýkur, þá gæti það vel verið,“ segir hann, spurður hvort hann sjái fram á að snúa aftur til Grindavíkur.

„Þetta er aðallega þreyta í bakinu og hnjánum,“ segir Hrannar um hvernig tilfinningin sé að flytja búslóðina úr Grindavík.

„Að pakka heilli búslóð í heilu einbýlishúsi á samtals 15 klukkutímum er ekki eitthvað sem flestir gera,“ segir Hrannar.

„Þetta getur ekki verið veruleikinn, það er erfitt að trúa því.“

Hrannar var á um tíundu ferðinni.
Hrannar var á um tíundu ferðinni. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka