Gular veðurviðvarnir vegna hvassviðris og hríðarveðurs verða í gildi á stórum hluta landsins fram eftir kvöldi en um næstu helgi má reikna með hlýindum og gætu þá sést tveggja stafa hitatölur.
„Það er svolítið mikið af gulum viðvörunum í dag og þær lengstu gilda til miðnættis. Það er víða hríðarveður og það snjóaði mikið á Austfjörðum í nótt. Það er þungfært á því svæði og heiðarvegirnir eru flestir lokaðir,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, við mbl.is.
Hann segir að hvasst hafi verið á Suðausturlandi í dag og þá sérstaklega í Öræfunum. Gul viðvörun á Suðausturlandi rann út klukkan 15 en hún tekur síðan aftur gildi um hádegisbilið á morgun og gildir fram til kvöld þar sem spáð er stífri norðvestanátt og þar geta komið vindkviður sem gætu orðið til vandræða.
„Veður fer batnandi á flest öllu landinu í kvöld og í nótt og á morgun verður veðrið þokkalegt nema á Suðausturlandi. Það mun ganga á með smá éljum og snjókomu á Norður- og Austurlandi á morgun og fram eftir kvöldi og það kólnar um land allt,“ segir Þorsteinn.
Hann segir að miðvikudagurinn muni byrja ágætlega. Það hlýni aðeins í veðri og það fari að snjóa á vesturhelmingi landsins. Um helgina er svo spáð sunnan átt og hlýindum.
„Við erum að sjá góðar hitatölur um næstu helgi og gætum alveg séð tveggja stafa hitatölur fyrir norðan og austan,“ segir Þorsteinn og bætir því við að veturinn sé langt frá því að vera búinn.