Vatn streymir í heitavatnstanka á Fitjum

Framkvæmdir gengu vel.
Framkvæmdir gengu vel. Ljósmynd/HS Orku

Vatn streymir nú inn í heitavatnstanka HS Orku á Fitjum en framkvæmdir við nýja hjáveitulögn Njarðvíkuræðarinnar gengu vonum framar í nótt, að því er fram kemur í tilkynningu HS Orku.

Um klukkan eitt í nótt lauk vinnu við að sjóða alla lögnina saman. Í kjölfarið var hún dregin með einni jarðýtu eftir hraunslóðanum sem liggur þvert yfir hraunið.

Tengistykki til endanna voru fullsmíðuð og tilbúin til áfestingar. Voru þau komin á sinn stað upp úr klukkan þrjú í nótt.

Hófst í kjölfarið vinna við að setja heitavatnsframleiðslu í orkuverinu í Svartsengi af stað og hleypa vatninu varlega á lögnina.

Hópur manna ók meðfram lögninni á meðan á því stóð til að botntæma og lofttæma lögnina og tryggja óheft rennsli. Á sama tíma stýrðu starfsmenn HS Orku í stjórnstöð innstreyminu í lögnina til að forðast loftmyndun og óeðlilega hitaþennslu á lögninni,“ segir í tilkynningunni.

Kemur fram að allt hafi gengið að óskum og streymir nú vatn frá orkuverinu inn í heitavatnstanka HS Orku á Fitjum.

Framgangur og skipulag þessarar stóru aðgerðar er einstakt á allan hátt og má þakka styrkri forystu almannavarna ásamt fjölmennum hópi af öflugum fag- og iðnaðarmönnum, verktökum og verkfræðingum. Samstillt átak fjölmarga aðila hefur þannig tryggt að heitt vatn kemst vonandi á öll hús á Suðurnesjum á allra næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert