Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur fyrir hönd íslenska ríkisins afhent óbyggðanefnd kröfur um þjóðlendur á svæði 12 sem nefnist „eyjar og sker“ og tekur til landsvæða innan landhelginnar en utan meginlandsins.
Á meðal krafna ríkisins er allt nýtt landsvæði sem myndaðist í Eyjagosinu árið 1973. Þar að auki er til dæmis gerð krafa um að Stórhöfði, Skansi og aðrir hlutar Heimaey verði að þjóðlendu. Þá má nefna að krafa er gerð til allra eyja og skerja í Vestmannaeyjum, eins og til dæmis Elliðaey, Bjarnarey og Surtsey.
Þetta kemur fram í tilkynningu óbyggðanefndar.
Óbyggðanefnd kallar nú eftir kröfum þeirra sem kunna að eiga öndverðra hagsmuna að gæta.
„Í kröfugerð fjármála- og efnahagsráðherra f.h. íslenska ríkisins er svæði 12 skipt í átta hluta. Í meginatriðum er beitt útilokunaraðferð, þ.e. lýst kröfum sem taka til allra eyja, skerja og annarra landfræðilegra eininga utan meginlandsins en innan landhelginnar sem eru ofansjávar á stórstraumsfjöru, að undanskildum tilteknum eyjum eða hlutum þeirra,“ segir í tilkynningunni.
Meðal þeirra eyja sem eru undanskildar þjóðlendukröfum eru Papey, Flatey á Skjálfanda, Hrísey og hluti Grímseyjar— en gerð er krafa til hluta Grímseyjar.
Eyjar og sker eru sautjánda og síðasta svæðið sem óbyggðanefnd tekur til meðferðar. Einnig stendur yfir málsmeðferð á Austfjörðum.