Ákvörðunin undir háskólunum komin

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Óttar

Með því að bjóða sjálfstætt starfandi háskólum landsins óskert fjárframlög frá ríkinu gegn afnámi skólagjalda vill Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir, há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, stuðla að valfrelsi ásamt því að styðja við ólík rekstrarform í menntakerfinu.

Þetta segir Áslaug Arna í samtali við mbl.is.

Í höndum hvers háskóla að taka ákvörðun

„Ég legg það til við sjálfstætt starfandi háskólana að þeir geti þegið 75% opinbert framlag eða þegið 100% opinbert framlag og fellt niður skólagjöld. Ákvörðunin er undir háskólunum komin en ég er að búa til þetta val fyrir skólana,“ segir Áslaug.

Spurð út í aðdraganda ákvörðunarinnar segist Áslaug að undanförnu hafa gjörbreytt fjármögnunarkerfi háskólanna með nýju árangurstengdu fjármögnunarlíkani. Þetta sé þó mál sem hún hafi haldið fyrir sjálfa sig á meðan hún hefur skoðað áhrifin og kynnt sér árangur menntakerfa Norðurlandanna.

„Þau bjóða öll upp á þessa tilhögun og við sjáum það að Norðurlöndin ná bæði betri árangri en við í menntakerfinu auk þess sem þau nýta sér einkarekstur enn frekar en við til að bjóða upp á jöfn tækifæri,“ segir Áslaug og bætir við:

Verra fyrir suma að þiggja heildarfjármögnun

Áslaug segir það eiga eftir að koma endanlega í ljós hvaða háskólar ákveði að þiggja 100% fjárframlag frá ríkinu og fella samhliða niður skólagjöld. Hins vegar vissi hún til þess að Listaháskóli Íslands hygðist fara þá leið, en tilkynning þess efnis barst frá skólanum fyrr í dag.

Spurð á hvaða grundvelli skólarnir myndu hafna heildarfjármögnuninni segir Áslaug suma háskóla einfaldlega koma betur úr úr því að taka skólagjöld í stað þess að þiggja heildarfjármögnun.

Því gætu einhverjir skólar viljað samþykkj tilhögunina strax næsta haust, á meðan aðrir háskólar taka sér hugsanlega lengri tíma til að taka ákvörðunina.

„Þeir gætu þá líka tekið ákvörðun um að fá áfram 75% framlag og taka þá skólagjöld. Ég er að bjóða upp á þetta val af því að ég tel að það getir styrkt heilbrigða samkeppni á milli skólanna, sem ég tel mikilvægt.“

Tækifæri til að sækja fleiri nemendur í háskólanna

Kemur þetta að einhverju leYti niður á opinberu háskólunum?

„Við erum að fjármagna þetta af fjármögnun háskólanna fyrir næsta ár. Það er ekki hægt að segja að þetta komi mikið niður á háskólunum, við höfum verið að styrkja fjármögnun háskólanna í heild sinni og þetta er partur af því,“ segir Áslaug og bætir við:

„Við erum að búa til hvata og árangurstengda fjármögnun sem skilar sér auðvitað í því að skólarnir geta sótt aukið fjármagn með auknum árangri.“

Þá segir Áslaug að samkeppni háskólanna um nemendur verði meiri auk þess sem í þessu felist tækifæri til að sækja fleiri nemendur inn í háskólana.

„Við sjáum það að hér hefur þróunin verið í ranga átt hvað varðar fjölda drengja sem eru að útskrifast úr háskólunum, en hún er alveg öfug við þróun Norðurlandanna því hvergi á Norðurlöndunum eru færri drengir að útskrifast úr háskóla. Auk þess sem fleiri drengir hér á landi eru óvirkir og kannski einungis með grunnskólapróf,“ segir Áslaug og bætir við:

„Það er auðvitað þannig að það skiptir miklu máli að menntakerfið okkar styðji við jöfn tækifæri og það skiptir okkur höfuð máli að auka verðmætasköpun í landinu. Þá vantar okkur fleiri sérfræðinga á ýmsum sviðum sem verða að stórum hluta að koma úr háskólunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert