Dómsins að meta lengd fangelsisvistar

Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá hérðassaksóknara.
Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá hérðassaksóknara. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karl Ingi Vil­bergs­son, sak­sókn­ari hjá héraðssak­sókn­ara, legg­ur það í mat dóm­ara að ákveða refs­ingu sak­born­ing­anna tveggja í hryðju­verka­mál­inu. Hann sagði viður­lög­in við vopna­laga­broti sak­born­ing­anna vera að lág­marki 15 til 18 mánaða fang­elsi. Viður­lög við und­ir­bún­ingi hryðju­verka lagði sak­sókn­ari í mat dóms­ins að ákveða refs­ingu þar sem að ekki hef­ur áður verið dæmt fyr­ir slíkt brot.

Sak­born­ing­arn­ir, Sindri Snær Birg­is­son og Ísi­dór Nathans­son, voru ekki viðstadd­ir dómþing er sak­sókn­ari flutti mál sitt.

Sakborningarnir, Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson.
Sak­born­ing­arn­ir, Sindri Snær Birg­is­son og Ísi­dór Nathans­son. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

„Um­fangs­mikið mál og marg­vís­leg gögn sem liggja fyr­ir,“ sagði Karl Ingi í upp­hafi máls en máls­gögn eru yfir fjög­ur þúsund blaðsíður.

Hann talaði með yf­ir­veg­un og fór yfir hvern lið fyr­ir sig í báðum ákær­um, önn­ur snýr að vopna­laga­brot­um og hin að und­ir­bún­ingi hryðju­verka.

Höfðu aðgang að vopn­um

Sak­sókn­ari byrjaði að fara yfir vopna­laga­brot sak­born­ing­anna sem tók um eina klukku­stund. Sak­born­ing­arn­ir hafa játað brotið að hluta, meðal ann­ars að hafa þrívídda prenta vopn í óleyfi. 

Karl Ingi vísaði í ýmis sam­skipti tví­menn­ing­anna um vopn, meðal ann­ars um sölu og kaup á þeim og þrívídda prent­un vopna, auk mynda af skot­vopn­um úr sím­um fé­lag­anna til að rök­styðja mál sitt.

Vopnin sem lögregla lagði hald á í tengslum við rannsóknina.
Vopn­in sem lög­regla lagði hald á í tengsl­um við rann­sókn­ina. mbl.is/​Hall­ur Már

Hann nefndi meðal ann­ars að Sindri hafði keypt þrjá riffla í nafni föður síns, Birg­is, en Sindri sótti tvisvar um að fá skot­vopna­leyfi og var hafnað.

Karl Ingi vildi meina að Sindri hafði haft greiðan aðgang að vopn­un­um og litið svo á að AR-15 rif­ill væri í sinni eigu. Riff­il­inn var merkt­ur Sindra en vopna­sal­inn sagði fyr­ir dómi að hann hefði ekki vitað hvað faðir Sindra héti og því merkt Sindra.

Feðgarn­ir sögðu fyr­ir dómi að Sindri hafði aldrei hand­leikið vopn­in án þess að vera í nær­veru ein­stak­lings með byssu­leyfi og ekki haft aðgang að þeim þar sem þau væru í læst­um byssu­skáp.

Karl Ingi sagði mik­il­vægt að muna að Birg­ir væri ná­tengd­ur Sindra og að ósam­ræmi hefði verið í framb­urði hans. Á föstu­dag gagn­rýndi Birg­ir rann­sókn lög­reglu.

Karl Ingi sagði mik­il­vægt að setja vopna­laga­brotið í sam­hengi við brotið er varðar und­ir­bún­ing að hryðju­verk­um.

Ekki reynt á ákvæði lag­anna áður

Sindri er ákærður fyr­ir til­raun til hryðju­verka og Ísi­dór hlut­deild í því broti.

Brotið varðar 100. a. grein hegn­ing­ar­laga og þá sér­stak­lega 1.2. og 4. tölulið.

Ekki hef­ur áður reynt á þetta ákvæði í lög­um að sögn sak­sókn­ar.

Ákvæðið er að fyr­ir­mynd danskra hryðju­verka­laga og var gert að lög­um hér á landi árið 2002 og lít­il­lega breytt árið 2009.

Karl Ingi las upp ákvæðið sem hljóðar svo:

Fyr­ir hryðju­verk skal refsa með allt að ævi­löngu fang­elsi hverj­um sem frem­ur eitt eða fleiri af eft­ir­töld­um brot­um í þeim til­gangi að valda al­menn­ingi veru­leg­um ótta eða þvinga með ólög­mæt­um hætti ís­lensk eða er­lend stjórn­völd eða alþjóðastofn­un til að gera eitt­hvað eða láta eitt­hvað ógert eða í því skyni að veikja eða skaða stjórn­skip­un eða stjórn­mála­leg­ar, efna­hags­leg­ar eða þjóðfé­lags­leg­ar und­ir­stöður rík­is eða alþjóðastofn­un­ar.

Karl Ingi saksóknari.
Karl Ingi sak­sókn­ari. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Und­ir­bún­ing­ur­inn í 64 töluliðum

Þá sagði Karl Ingi að þetta mál væri ekki einu sér­stakt fyr­ir þær sak­ir að fjalla um hryðju­verka­ákvæði hegn­ing­ar­laga held­ur einnig að reynt sé á ákvæði sem fjall­ar um að und­ir­bún­ingi brota fylgi refsi­á­byrgð. Hann vísaði þar til 20. grein­ar hegn­ing­ar­laga sem fjall­ar um und­ir­bún­ings­at­höfn­um, þ.e.a.s. skipu­lagn­ingu brots og und­ir­bún­ing þeirra.

Und­ir­bún­ingi Sindra að hryðju­verk­um er lýst í 64 töluliðum í ákæru.

Sam­kvæmt ákæru sýndi Sindri ásetn­ing í verki meðal ann­ars með því að út­búa, fram­leiða skot­vopn, verða sér úti um efni um sprengju- og dróna­gerð, til­einka sér efni þekktra aðila sem framið hafa hryðju­verk og verða sér úti um lög­reglufatnað.

Sak­sókn­ari tel­ur að Sindri hafði ætlað að fremja hryðju­verk dul­bú­inn sem lög­reglumaður.

Margra mánaða sam­skipti

Vísaði Karl Ingi að mestu í sam­skipti fé­lag­anna í máli sínu. Hann sagði ekki sé hægt að telja að ein­ung­is hafði verið um „inni­halds­laust hjal eða kæru­leys­is­legt tal“  á milli vina að ræða.

Hann nefndi að sam­skipti fé­lag­anna hafði ekki átt sér stað í eina kvöld­stund eða yfir eina helgi held­ur en margra mánaða tíma­bil árið 2022.

Þá nefndi hann að menn­irn­ir væru ekki börn held­ur full­orðnir menn sem höfðu aðgengi að vopn­um. Geðlækn­ir mat ekki svo að þeir glímdu við greind­ar­skort vegna geðsjúk­dóm og því höfðu þeir óskerta dómgreind.

„Sólg­inn í að kom­ast yfir of­beld­is­mynd­skeið“

Sak­sókn­ari nefndi að Ísi­dór er yf­ir­lýst­ur ras­isti og Sindri sagt að hon­um væri ekki vel við sam­kyn­hneigða.

Karl Ingi sagði aug­ljósa skír­skot­un vera í sam­skipt­um fé­lag­anna við hug­mynda­fræði norska fjölda­morðingj­ans And­ers Brei­vik og annarra hryðju­verka­manna.

Oft hef­ur verið minnst á stefnu­yf­ir­lýs­ingu Brei­viks við aðalmeðferðina sem ákærðu vísuðu orðrétt í í nokk­ur skipti. „Það fer ekk­ert á milli mála að Sindri er afar hug­fang­inn af Brei­vik,“ sagði Karl Ingi en Sindri hef­ur kallað Brei­vik „mein fu­hrer“, eða for­ingja sinn.

Þá fund­ust mynd­skeið af fjölda­morðum á raf­tækj­um sak­born­ing­anna. Eitt slíkt var sýnt í dómssal í gær. „Annað eins mynd­band hef ég aldrei séð á æv­inni,“ sagði Karl Ingi í mál­flutn­ingi sín­um.

Hann sagði Sindra vera: „sólg­inn í að kom­ast yfir of­beld­is­mynd­skeið“ og sú öfl­un væri liður í und­ir­bún­ingi hryðju­verka.

Dul­bú­ast sem lög­reglumaður

Karl Ingi sagði það óskilj­an­legt að Sindri hefði reynt að verða sér úti um lög­reglufatnað og búnað nema í því skyni að dul­bú­ast sem lög­reglumaður.

Skot­helt vesti fannst á heim­ili Sindra og þá vísaði sak­sókn­ari til inn­kaupal­ista sem Sindri hafði gert um ýmis kon­ar aðgerðarbúnað og kostnað þess. Hann fór síðast inn á það skjal dag­inn áður en hann var hand­tek­inn fyrst.

Hann sagði óum­deilt að Sindri hefði ætlað að leita í smiðju Brei­vik og dul­bú­ast sem lög­reglumaður til þess að fremja voðaverk. Hann sagði sak­born­ing­anna hafa virst vera á sömu veg­ferð og Brei­vik.

Dansk­ir dóm­ar til hliðsjón­ar

Karl Ingi sagði að Sindri hefði verið bú­inn að taka ákvörðun um að ætla að fremja hryðju­verk. Meðal ann­ars hefði hann verið búin að verða sér úti um vopn og til­einka sér hug­mynda­fræði þekktra hryðju­verka­manna.

Hann sagði að mögu­lega hefði Sindri ekki verið bú­inn að ákveða hvar eða hvenær hann ætlaði að fram­kvæma brotið, en að það væri auka­atriði þar sem að um und­ir­bún­ings­at­höfn­in væri refsi­verð. 

Sak­sókn­ari vísaði til tveggja dóma sem hafa fallið hér á landi um und­ir­bún­ing að broti. Ann­ar frá miðri 20. öld og síðari frá ár­inu 2016.

Þá nefndi Karl Ingi einnig nokkra danska dóm sem mætti leggja til hliðsjón­ar í úr­lausn þessa máls og ít­rekaði að ís­lensk hryðju­verka­lög byggi á dönsk lög­um. Hann sagði að í öll­um mál­un­um hefði ekki legið fyr­ir hvenær eða hvar voðaverðin ættu að fara fram.

Karl Ingi nefndi að eini mögu­leiki lög­reglu til að koma í veg fyr­ir hryðju­verk væri á und­ir­bún­ings­stigi og að ein­ung­is nokkr­ar sek­únd­ur hefðu þurft fyr­ir sak­born­ing­anna að fremja voðaverk.

Eft­ir rúm­lega tvo tíma og 45 mín­út­ur lauk mál­flutn­ingi Karls Inga sak­sókn­ara.

Eft­ir há­degi munu verj­end­ur Sindra og Ísi­dórs flytja mál sitt fyr­ir dóm­in­um.

Sveinn Andri Sveinsson og Einar Oddur Sigurðsson eru verjendur í …
Sveinn Andri Sveins­son og Ein­ar Odd­ur Sig­urðsson eru verj­end­ur í mál­inu. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert