Flokkast sem alvarlegt flugatvik

Keflavíkurflugvöllur.
Keflavíkurflugvöllur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Atvikið þegar tvær einkaflugvélar rákust saman á flugi við Vestmannaeyjar á sunnudaginn er flokkað sem alvarlegt flugatvik, að sögn Ragnars Guðmundssonar, rannsakanda á flugsviði hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa.

„Þetta mál er bara í hefðbundnu rannsóknarferli. Við höfum opnað mál á þetta og höfum skilgreint þetta sem alvarlegt flugatvik. Gagnaöflun stendur yfir og er atvikið á fyrstu stigum rannsóknarinnar,“ segir Ragnar við mbl.is.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa flokkar flugatvik í þrjá flokka. Þeir eru: flugatvik, alvarleg flugatvik og flugslys.

„Megnið af svona málum flokkast undir flugatvik og þau mál rannsökum við ekki nema í algjörum undantekningartilfellum. Þegar um er að ræða alvarleg flugatvik þá tökum við það til rannsóknar og síðan er tekin ákvörðun hvort farið sé í frekari rannsókn. Í tilfelli flugslysa eru þau alltaf rannsökuð,“ segir Ragnar.

Flugvélarnar, sem eru báðar á erlendri skráningu, eru af gerðinni Kingair B200. Flugmaður og einn farþegi voru í annarri vélinni en flugmaður í hinni. Flugvélarnar standa báðar á Keflavíkurflugvelli og eru ekki lofthæfar, að sögn Ragnars en gera þarf við báðar vélarnar.

Flugmennirnir létu ekki vita

Ragnar segir að búið sé að ræða við báða flugmennina. Hann segir að atvikið hafi verið tilkynnt eftir lendingu vélanna á Keflavíkurflugvelli.

„Við fengum tilkynningu frá starfsmönnum flugvallarins sem urðu varir við skemmdir á vélunum og síðan komu tilkynningar frá fleiri stöðum. Flugmennirnir létu ekki vita af þessu atviki á flugi og flugturninn hafði ekki vitneskju um málið,“ segir Ragnar.

Spurður hvort um saknæmt athæfi sé að ræða hjá flugmönnunum að hafa ekki tilkynnt um atvikið segir hann:

„Við erum ekki að skipta sök eða ábyrgð. Við erum bara að hugsa um flugöryggi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert