Háskólinn í Reykjavík hefur ekki tekið neinar ákvarðanir um breytingar á skólagjöldum sínum.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur boðið skólastjórnendum sjálfstætt starfandi háskóla að skólarnir hljóti óskert fjárframlög frá ríkinu gegn afnámi skólagjalda.
Dr. Ragnhildur Helgadóttir, rektor HR, segir í samtali við mbl.is skólayfirvöld hafa vitað að þessar breytingar væru til skoðunar í ráðuneytinu. Formleg tilkynning barst svo skólanum í morgun.
„Nú verður bara sest yfir þetta hjá stjórnendum og stjórn. Reiknilíkan er enn í mótun fyrir næsta ár þannig að sumu leyti er allt umhverfið pínulítið í mótun. Þess vegna vildum við bíða eftir því að þetta kæmi formlega út og taka afstöðu þegar það lægi fyrir, “ segir hún.
Ragnhildur segir að sú vinna muni klárast hratt og örugglega. Á ári hverju er miðað við að hafa allar upplýsingar um námið á hreinu fyrir Háskóladaginn. Hann verður haldinn 2. mars í ár og þá geta nemendur kynnt sér námsframboðið sem í boði er hér á landi.
Fyrr í dag tilkynnti Listaháskóli Íslands að skólagjöld í skólanum verði felld niður frá og með haustinu 2024.