„Rörsýn“ lögreglu og átt við sönnunargögn

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra.
Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sveinn Andri Sveins­son, verj­andi Sindra Snæs Birg­is­son­ar, tel­ur að lög­regla hafi átt við sönn­un­ar­gögn og að strax frá upp­hafi rann­sókn­ar á hryðju­verka­mál­inu verið með „rör­sýn“ til þess að sanna að sak­born­ing­arn­ir hefðu ætlað að und­ir­búa hryðju­verk.

Sveinn krefst sýknu þegar kem­ur að hryðju­verka­hlut­un­um. Til þrauta­vara lægstu refs­ing­ar sem lög leyfa. Þá er kraf­ist lægstu mögu­legr­ar refs­ing­ar er kem­ur að hluta vopna­laga­brots­ins, en Sindri hef­ur játað síðari brotið að hluta til. Þá er þess kraf­ist að refs­ing­in verði skil­orðsbund­in.

Meg­in­hluti mál­flutn­ings lög­manns­ins kom að hryðju­verka­hluta ákær­unn­ar. Fyr­ir lá 73 blaðsíðna grein­ar­gerð Sveins Andra í mál­inu sem hann byggði mál sitt á.

Sveinn Andri talaði af yf­ir­veg­un en með ákefð í rúma klukku­stund og sagði að menn­irn­ir hefðu aldrei ætlað að fram­kvæma hryðju­verk. Sam­töl þeirra hefðu lit­ast af svört­um húm­or. Hann sagði að leit Sindra á net­inu um ým­is­lega öfga­hyggju vera grúsk, ekki und­ir­bún­ings­at­höfn.

Sindri og Ísi­dór voru ekki viðstadd­ir dómþing í dag.

Sveinn Andri og Sindri Snær.
Sveinn Andri og Sindri Snær. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Brot á hlut­leys­is­lög­um

Sveinn Andri tel­ur að lög­regla hafi haft „rör­sýn“ á málið strax frá upp­hafi og að öll rann­sókn máls­ins hafi snú­ist að því að sanna að ákærðu hefðu und­ir­búið hryðju­verk. Hann sagði að strax í upp­hafi hefði kenn­ing lög­reglu verið þung og mik­il og vísaði til blaðamanna­fund­ar rík­is­lög­reglu­stjóra dag­inn eft­ir að menn­irn­ir voru hand­tekn­ir í sept­em­ber árið 2022.

Sveinn Andri sagði að rör­sýn­in birt­ist meðal ann­ars í yf­ir­heyrsl­um yfir Sindra og þar hefði lög­regla ít­rekað gerst brot­leg á hlut­leys­is­regl­um.

Þá sagði hann að rör­sýn­in hefði einnig birst í und­ar­leg­um álykt­un­um og beit­ingu óhóf­legra rann­sóknar­úr­ræða eins og langvar­andi gæslu­v­arðhalds­úrsk­urða.

Fyrsti hryðju­verkamaður­inn til að selja vopn

Sveinn Andri sagði rangt að tala um árás­arriffla þar sem riffl­arn­ir sem fund­ust á heim­ili Sindra væru ein­skotariffl­ar, ekki hálf­sjálf­virk­ir riffl­ar sem hægt er að breyta í alsjálf­virka riffla.

Hann sagði óum­deil­an­legt að AR-15 og AK-47 riffl­arn­ir hefðu verið í eigu Birg­is, föður Sindra. Vissu­lega hafi Sindri prófað riffl­ana en ávalt í viðurvist Birg­is. Sindri sótti um byssu­leyfi sum­arið 2022 en fékk það ekki þar sem hann hafði verið svipt­ur öku­rétt­ind­um tíma­bundið.

Sveinn Andri sagði að lög­regl­an hafði átt við AR-15 riff­il sem fannst á heim­ili Sindra.

Vopn sem lögregla lagði hald á í málinu.
Vopn sem lög­regla lagði hald á í mál­inu. mbl.is/​Hólm­fríður María

Sindri játaði að hafa breytt riffl­in­um í hálf­sjálf­virk­an og sagðist hafa breytt hon­um til­baka þar sem breyt­ing­in virkaði illa.

Tækni­fræðing­ur sem var feng­inn af lög­reglu til að skoða riff­il­inn og kom fram fyr­ir dómi á föstu­dag, sagði hann enn þann dag í dag vera breytt­an. Sindri virt­ist afar ósátt­ur við þá full­yrðingu og ætlaði að spyrja tækni­fræðing­inn spurn­ingu. Dóm­ari þurfti að benda hon­um á að verj­andi hans spyrði fyr­ir hans hönd.

Sveinn Andri vildi meina að gas­pípa hefði verið fest aft­ur á riff­il­inn eft­ir að Sindri losaði hana. Hann nefndi í því sam­hengi að lög­regla hefði spurt Sindra í skýrslu­töku af hverju stykkið væri  laust. Sveinn Andri sagði því ljóst að lög­regla hefði átt við sönn­un­ar­gögn.

Sveinn Andri sagði að ef satt reynd­ist að Sindri ætlaði að fremja voðaverk þá væri hann fyrsti hryðju­verka­mann­inn til að selja þrívídda prentuð vopn. Sindri játaði að hafa prentað og selt fimm slík vopn.

Eng­ar op­in­ber­ar yf­ir­lýs­ing­ar

Hann sagði að um­mæli mann­anna vera tveggja manna tal en eng­ar op­in­ber­ar yf­ir­lýs­ing­ar, eng­in at­höfn fylgt. Þá vísaði Sveinn Andri til þess að tal­inu hefði verið eytt inn­an skamms tíma og að tví­menn­ing­arn­ir höfðu rætt margt annað.

Hann sagði mik­il­vægt að meta sam­töl­in í heild, án þess að horfa á sam­töl­in sem ákæru­valdið klippti til. Sveinn Andri sagði að allt al­mennt spaug hefði verið klippt út og að um væri að ræða rétt­ar­spjöll að hálfu ákæru­valds­ins.

Þá benti Sveinn Andri á mat geðlækn­is á sak­born­ing­un­um þar sem hann sagði að Sindri og Ísi­dór virt­ust heiðarleg­ir er þeir sögðu að um væri að ræða „gal­gopalegt lagt tal án inni­stæðu verið“.

Málflutningur Sveins Andra tók rúma klukkustund.
Mál­flutn­ing­ur Sveins Andra tók rúma klukku­stund. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

„Þarf miklu meira til“

Sveinn Andri sagði Sindra ekki til­einka eða aðhyll­ast hug­mynd­fræði hryðju­verka­manna né aðferðafræði þeirra líkt og ákæru­valdið tel­ur vera raun­ina.

„Það þarf miklu meira til,“ sagði Sveinn Andri ít­rekað varðandi hvort sam­tal og hegðun sak­born­ing­anna gæti flokk­ast sem und­ir­bún­ing­ur að hryðju­verk­um.

Þá gagn­rýndi Sveinn Andri full­yrðingu ákæru­valds að Sindri hafi mætt á milli lok­anna á Hinseg­in dög­um til mæla bil á milli lok­anna. Sveinn Andri sagði það vera al­gjöra steypu og nefndi að Sindri hefði verið hvergi nærri miðbæ Reykja­vík­ur þessa daga og sagði að lög­regla hefði snúið upp á orð Ísi­dórs um at­vikið.

Sveinn Andri sagði að Sindri hefði aldrei orðið sér úti um lög­reglufatnað né búnað. Hann hefði keypt vesti sem átti að vera skot­helt en var al­gjört drasl.

Deildu áhuga á vopn­um og tækni

Hann sagði það liggja fyr­ir að Ísi­dór væri með veru­lega öfga­full­ar skoðanir og að Sindri deildi ekki þeim skoðunum. Þeir þekkt­ust frá því í æsku en urðu mjög góðir vin­ir er þeir fóru að vinna sam­an hjá verk­taka­fyr­ir­tæki árið 2021.

„Fabúl­eruðu um hryðju­verk,“ sagði Sveinn Andri um sam­töl þeirra og bætti við að þau kynni að virðast furðulegt en um einka­húm­or væri að ræða. Hann ít­rekaði að vin­irn­ir hefðu farið úr einu yfir í annað í sam­töl­um sín­um.

Sveinn Andri sagði Sindri og Ísi­dór deildu áhuga á tækni og skot­vopn­um.

„Nör­d­ar sem brutu á vopna­lög­um“

Hann sagði að sak­born­ing­arn­ir væru ein­ung­is lykla­borðsstríðmenn sín á milli, en ekki op­in­ber­lega líkt og skýrsla Europol um málið kveður á um.

„Nör­d­ar sem brutu á vopna­lög­um,“ sagði Sveinn Andri um tví­menn­ing­anna og að þeir væru ekki við það að fram­kvæma hægriöfga hryðju­verk.

Sveinn Andri nefndi að Sindri væri ung­ur að árum og hefði flekk­laus­an saka­fer­il. Þá ætti hann kær­ustu og barn. Hann passi því ekki við þá hug­mynd um ein­yrkja sem fremdi hryðju­verk.

Hann sagði málið í heild vera af­sprengi „ótíma­bærra yf­ir­lýs­inga lög­reglu“ um und­ir­bún­ing hryðju­verka. Þá sagði Sveinn Andri að ákæru­valdið væri víðsfjarri í mál­flutn­ingi sín­um og að hefði ekki tek­ist að axla ábyrgð um sönn­un­ar­byrgði í mál­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert