„Rörsýn“ lögreglu og átt við sönnunargögn

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra.
Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra Snæs Birgissonar, telur að lögregla hafi átt við sönnunargögn og að strax frá upphafi rannsóknar á hryðjuverkamálinu verið með „rörsýn“ til þess að sanna að sakborningarnir hefðu ætlað að undirbúa hryðjuverk.

Sveinn krefst sýknu þegar kemur að hryðjuverkahlutunum. Til þrautavara lægstu refsingar sem lög leyfa. Þá er krafist lægstu mögulegrar refsingar er kemur að hluta vopnalagabrotsins, en Sindri hefur játað síðari brotið að hluta til. Þá er þess krafist að refsingin verði skilorðsbundin.

Meginhluti málflutnings lögmannsins kom að hryðjuverkahluta ákærunnar. Fyrir lá 73 blaðsíðna greinargerð Sveins Andra í málinu sem hann byggði mál sitt á.

Sveinn Andri talaði af yfirvegun en með ákefð í rúma klukkustund og sagði að mennirnir hefðu aldrei ætlað að framkvæma hryðjuverk. Samtöl þeirra hefðu litast af svörtum húmor. Hann sagði að leit Sindra á netinu um ýmislega öfgahyggju vera grúsk, ekki undirbúningsathöfn.

Sindri og Ísidór voru ekki viðstaddir dómþing í dag.

Sveinn Andri og Sindri Snær.
Sveinn Andri og Sindri Snær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brot á hlutleysislögum

Sveinn Andri telur að lögregla hafi haft „rörsýn“ á málið strax frá upphafi og að öll rannsókn málsins hafi snúist að því að sanna að ákærðu hefðu undirbúið hryðjuverk. Hann sagði að strax í upphafi hefði kenning lögreglu verið þung og mikil og vísaði til blaðamannafundar ríkislögreglustjóra daginn eftir að mennirnir voru handteknir í september árið 2022.

Sveinn Andri sagði að rörsýnin birtist meðal annars í yfirheyrslum yfir Sindra og þar hefði lögregla ítrekað gerst brotleg á hlutleysisreglum.

Þá sagði hann að rörsýnin hefði einnig birst í undarlegum ályktunum og beitingu óhóflegra rannsóknarúrræða eins og langvarandi gæsluvarðhaldsúrskurða.

Fyrsti hryðjuverkamaðurinn til að selja vopn

Sveinn Andri sagði rangt að tala um árásarriffla þar sem rifflarnir sem fundust á heimili Sindra væru einskotarifflar, ekki hálfsjálfvirkir rifflar sem hægt er að breyta í alsjálfvirka riffla.

Hann sagði óumdeilanlegt að AR-15 og AK-47 rifflarnir hefðu verið í eigu Birgis, föður Sindra. Vissulega hafi Sindri prófað rifflana en ávalt í viðurvist Birgis. Sindri sótti um byssuleyfi sumarið 2022 en fékk það ekki þar sem hann hafði verið sviptur ökuréttindum tímabundið.

Sveinn Andri sagði að lögreglan hafði átt við AR-15 riffil sem fannst á heimili Sindra.

Vopn sem lögregla lagði hald á í málinu.
Vopn sem lögregla lagði hald á í málinu. mbl.is/Hólmfríður María

Sindri játaði að hafa breytt rifflinum í hálfsjálfvirkan og sagðist hafa breytt honum tilbaka þar sem breytingin virkaði illa.

Tæknifræðingur sem var fenginn af lögreglu til að skoða riffilinn og kom fram fyrir dómi á föstudag, sagði hann enn þann dag í dag vera breyttan. Sindri virtist afar ósáttur við þá fullyrðingu og ætlaði að spyrja tæknifræðinginn spurningu. Dómari þurfti að benda honum á að verjandi hans spyrði fyrir hans hönd.

Sveinn Andri vildi meina að gaspípa hefði verið fest aftur á riffilinn eftir að Sindri losaði hana. Hann nefndi í því samhengi að lögregla hefði spurt Sindra í skýrslutöku af hverju stykkið væri  laust. Sveinn Andri sagði því ljóst að lögregla hefði átt við sönnunargögn.

Sveinn Andri sagði að ef satt reyndist að Sindri ætlaði að fremja voðaverk þá væri hann fyrsti hryðjuverkamanninn til að selja þrívídda prentuð vopn. Sindri játaði að hafa prentað og selt fimm slík vopn.

Engar opinberar yfirlýsingar

Hann sagði að ummæli mannanna vera tveggja manna tal en engar opinberar yfirlýsingar, engin athöfn fylgt. Þá vísaði Sveinn Andri til þess að talinu hefði verið eytt innan skamms tíma og að tvímenningarnir höfðu rætt margt annað.

Hann sagði mikilvægt að meta samtölin í heild, án þess að horfa á samtölin sem ákæruvaldið klippti til. Sveinn Andri sagði að allt almennt spaug hefði verið klippt út og að um væri að ræða réttarspjöll að hálfu ákæruvaldsins.

Þá benti Sveinn Andri á mat geðlæknis á sakborningunum þar sem hann sagði að Sindri og Ísidór virtust heiðarlegir er þeir sögðu að um væri að ræða „galgopalegt lagt tal án innistæðu verið“.

Málflutningur Sveins Andra tók rúma klukkustund.
Málflutningur Sveins Andra tók rúma klukkustund. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þarf miklu meira til“

Sveinn Andri sagði Sindra ekki tileinka eða aðhyllast hugmyndfræði hryðjuverkamanna né aðferðafræði þeirra líkt og ákæruvaldið telur vera raunina.

„Það þarf miklu meira til,“ sagði Sveinn Andri ítrekað varðandi hvort samtal og hegðun sakborninganna gæti flokkast sem undirbúningur að hryðjuverkum.

Þá gagnrýndi Sveinn Andri fullyrðingu ákæruvalds að Sindri hafi mætt á milli lokanna á Hinsegin dögum til mæla bil á milli lokanna. Sveinn Andri sagði það vera algjöra steypu og nefndi að Sindri hefði verið hvergi nærri miðbæ Reykjavíkur þessa daga og sagði að lögregla hefði snúið upp á orð Ísidórs um atvikið.

Sveinn Andri sagði að Sindri hefði aldrei orðið sér úti um lögreglufatnað né búnað. Hann hefði keypt vesti sem átti að vera skothelt en var algjört drasl.

Deildu áhuga á vopnum og tækni

Hann sagði það liggja fyrir að Ísidór væri með verulega öfgafullar skoðanir og að Sindri deildi ekki þeim skoðunum. Þeir þekktust frá því í æsku en urðu mjög góðir vinir er þeir fóru að vinna saman hjá verktakafyrirtæki árið 2021.

„Fabúleruðu um hryðjuverk,“ sagði Sveinn Andri um samtöl þeirra og bætti við að þau kynni að virðast furðulegt en um einkahúmor væri að ræða. Hann ítrekaði að vinirnir hefðu farið úr einu yfir í annað í samtölum sínum.

Sveinn Andri sagði Sindri og Ísidór deildu áhuga á tækni og skotvopnum.

„Nördar sem brutu á vopnalögum“

Hann sagði að sakborningarnir væru einungis lyklaborðsstríðmenn sín á milli, en ekki opinberlega líkt og skýrsla Europol um málið kveður á um.

„Nördar sem brutu á vopnalögum,“ sagði Sveinn Andri um tvímenninganna og að þeir væru ekki við það að framkvæma hægriöfga hryðjuverk.

Sveinn Andri nefndi að Sindri væri ungur að árum og hefði flekklausan sakaferil. Þá ætti hann kærustu og barn. Hann passi því ekki við þá hugmynd um einyrkja sem fremdi hryðjuverk.

Hann sagði málið í heild vera afsprengi „ótímabærra yfirlýsinga lögreglu“ um undirbúning hryðjuverka. Þá sagði Sveinn Andri að ákæruvaldið væri víðsfjarri í málflutningi sínum og að hefði ekki tekist að axla ábyrgð um sönnunarbyrgði í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert