„Sjáum fram á að vera alltaf í tapi“

Aleigunni pakkað saman.
Aleigunni pakkað saman. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hafsteinn Sævarsson, íbúi í Grindavík, segir erfiða stöðu Grindvíkinga ekki leysast með frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Hann segir óvissuna halda áfram og gagnrýnir stjórnvöld fyrir að tala mikið en gera lítið. Ljóst sé að sumir tapi á húsakaupafrumvarpinu á meðan aðrir græði.

Blaðamaður mbl.is ræddi við hann um stöðuna og framtíðina á meðan hann pakkaði saman eigum sínum í Grindavík í dag og undirbjó flutninga.

„Við vitum nákvæmlega ekkert hvað gerist næst. Tillögur ríkisstjórnarinnar eru ekki að hjálpa neitt,“ segir Hafsteinn.

„Við sjáum fram á að vera alltaf í tapi, og …
„Við sjáum fram á að vera alltaf í tapi, og við erum ekki að tala um neina tíuþúsundkalla,“ segir Hafsteinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sumir heppnari en aðrir

Bendir hann á að brunabótamatið gefi ekki rétta sýn á andvirði eignarinnar. Staða hans er erfið vegna þess að hann býr í nýju húsi.

„Við sjáum fram á að vera alltaf í tapi, og við erum ekki að tala um neina tíuþúsundkalla.“ 

Brunabótamatið er töluvert lægra en raunverulegt andvrði eignarinnar. Hann segir marga vera í sömu stöðu. 

„Maður hefur líka heyrt í mörgum Grindvíkingum sem eru með hátt brunabótamat á eignum sem hefðu aldrei fengið sama andvirði. Ég held það sé verra með nýrri eignir. Þá lítur þetta öðruvísi við. Svo eru það þeir sem eru enn á byggingarstigi, fyrir þá er þetta bara hreint tap.“

Hafsteinn pakkaði saman á heimili sínu í dag.
Hafsteinn pakkaði saman á heimili sínu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gagnrýnir frumvarp ríkisstjórnarinnar

Hafsteinn hefur sent inn athugasemd við frumvarpið þar sem hann bendir meðal annars á þetta. Hann gagnrýnir einnig það að ekki sé fjallað um réttindi fyrstu kaupenda í frumvarpinu. 

„Svo er það hitt, það er fullt af fyrstueignarkaupendum í bænum. Það verður tekinn af þeim sá réttur þeirra við að fá hann aftur. Ég fjalla einnig um það í athugasemdinni.“

Hann segist treysta á að það verði einhverjar stórar breytingar á þessu frumvarpi nú þegar íbúar hafa haft tækifæri til að koma athugasemdum sinum á framfæri. 

Hafsteinn Sævarsson.
Hafsteinn Sævarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gríðarlegur kostnaður

Hafsteinn segir einnig ríkisstjórnina vanmeta þann kostnað sem Grindvíkingar hafa þurft að leggja út síðustu mánuði. 

„Við erum búin að þurfa að flytja þrisvar sinnum. Við erum búin að eyða nokkur hundrað þúsund í þá flutninga, bensín og annan kostnað sem annars hefði aldrei verið.“

Hann bætir einnig við að ekki megi gleyma andlegu hliðinni. Þá segir hann fullt af Grindvíkingum einfaldlega vera með tóm batterí og geta jafn vel ekki unnið. 

„Maður heyrir bara fulltrúa ríkisstjórnar, forsætisráðherra, fjármálaráðherra og innviðaráðherra tala og tala en það er í sjálfu sér ekki búið að gera neitt,“ segir Hafsteinn. 

Hann gagnrýnir sein viðbrögð stjórnvalda. Til að mynda hefði verið hægt að setja upp einingarhús fyrr, segir hann. 

Hafsteinn og fjölskyldan hans munu flytja á höfuðborgarsvæðið.
Hafsteinn og fjölskyldan hans munu flytja á höfuðborgarsvæðið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Byggt á sprungusvæði

Hafsteinn kveðst einnig hissa á því að byggt hafi verið á sumum svæðum í bænum til að byrja með. Hverfið sem hann bjó í er yfirlýst sprungusvæði. 

Sjálfur er hann ekki frá Grindavík og segist ekki hafa fengið neinar upplýsingar um hvaða hættur væri á svæðinu þegar hann keypti eignina. Hann segist mjög hissa á byggingarfulltrúum og skipulagsfulltrúum.

„Það sló mig þegar ég tók við lyklunum og spurði hvar best væri að setja frárennsli fyrir heitan pott. Svarið sem ég fékk var: Þetta er byggt á hrauni. Vatnið rennur bara niður, þarft ekki frárennsli.“

Það eru alls konar svona spurningar sem eru engin svör við, segir hann að lokum.

Hafsteinn kveðst einnig hissa á því að byggt hafi verið …
Hafsteinn kveðst einnig hissa á því að byggt hafi verið á sumum svæðum í bænum til að byrja með. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert