Skólagjöld verða felld niður hjá LHÍ

Listaháskóli Íslands.
Listaháskóli Íslands.

Skólagjöld verða felld niður við Listaháskóla Íslands frá og með haustinu 2024. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum.

Þar er minnst á tilkynningu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrr í dag um að skólastjórnendum sjálfstætt starfandi háskóla standi til boða að fá óskert fjárframlög frá ríkinu gegn afnámi skólagjalda.

Listaháskólinn segir þetta mikið fagnaðarefni en hann hefur lengi talað fyrir því að afnema skólagjöld. Næsta haust munu nemendur skólans þá aðeins greiða skrásetningargjöld sambærileg þeim sem eru hjá opinberu háskólunum.

„Þetta eru stór tímamót í sögu skólans og mikilvægasta jafnréttismál hvað varðar aðgengi nemenda að háskólanámi í listum hér á landi,“ segir Kristín Eysteinsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands, í tilkynningunni.

„Við höfum lengi bent á það ójafnræði sem felst í því að nám í listum sé bundið skilyrðum um skólagjöld umfram nám í öðrum háskólagreinum. Í þessu felast jafnari tækifæri til aðgengis að listnámi óháð efnahag sem er mikið fagnaðarefni. Við væntum þess að ákvörðunin feli í sér enn fjölbreyttari hóp umsækjenda, og þar af leiðandi hóp nemenda, á komandi árum,“ bætir hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert