Daria Judyta Ka hóf í gær leit að öskudagsskemmtun fyrir dóttur sína. Hún spurði hvort eitthvað slíkt væri í boði fyrir þau börn sem ekki væru enn búin að fá leikskólapláss á nýjum stað eftir að Grindavíkurbær var rýmdur þann 10. nóvember í fyrra.
Varpaði hún spurningunni fram á Facebook-síðu fyrir íbúa Grindavíkur.
Dóttir Dariu, Lena, er fjögurra og hálfs árs gömul og hafði verið á leikskólanum Laut í Grindavík í tvö og hálft ár áður en til rýmingarinnar kom. Fluttist fjölskyldan þá, ásamt systur Dariu og syni hennar, í sumarbústað nálægt Selfossi þar sem þau höfðust við fyrst um sinn á meðan mesta óvissan ríkti um hvort íbúar fengju að snúa aftur til Grindavíkur.
Lena hefur ekki fengið leikskólapláss á nýjum stað, þrátt fyrir að Daria hafi sótt um pláss á fjölmörgum leikskólum víða um landið.
Lýsir Daria því í samtali við mbl.is að fjölskyldunni líði svolítið eins og búið sé að gleyma henni og þau standi ein í því að koma barninu inn á leikskóla.
„Það fyrsta sem ég gerði var að kanna hvort dóttir mín fengi pláss á leikskóla á Selfossi. Ég beið í þrjár vikur án þess að fá svör og þetta var farið að verða erfiðara og erfiðara fyrir hana því hún þráði að komast og leika við önnur börn. Ég fór með hana í eitt skipti í safnskólann í Grafarvogi en því miður var það of langt fyrir okkur að fara,“ segir Daria.
Í framhaldinu ákvað fjölskyldan að fara til Póllands yfir jólin til að heimsækja ættingja og vini og kúpla sig aðeins út úr aðstæðunum hér heima sem voru orðnar ansi íþyngjandi og erfiðar að sögn Dariu.
„Ég sendi því tölvupóst á leikskólann Laut og lét þá vita að við værum að fara til Póllands og síðan að flytja í Voga þar sem við fundum íbúð þar. Ég var virkilega að vona að Lena fengi pláss á leikskóla hér eða í Reykjanesbæ, “ segir hún.
„En á meðan við vorum í Póllandi þá fékk ég tölvupóst þar sem mér var sagt að verið væri að opna stað fyrir börnin í Hafnarfirði. Ég var svo glöð því ég hugsaði með mér að ef ég fengi ekki leikskólapláss fyrir hana í Vogum eða í Keflavík að þá væri alveg gerlegt fyrir okkur að keyra til Hafnarfjarðar í leikskólann,“ segir hún en viðurkennir að auðvitað hafi þeim þótt vegalengdin heldur meiri en þau hefðu vonast eftir.
„Þetta hefðu orðið 80 kílómetrar daglega en við vorum samt tilbúin að leggja það á okkur. Svo það fyrsta sem ég gerði þegar við komum til baka frá Póllandi var að senda leikskólanum póst og spyrja út í leikskólagjöldin og hvernig þetta allt virkaði. Þau vissu því að við hefðum áhuga á að taka plássið. Það var enginn sem lét mig vita að um væri að ræða takmarkað pláss en daginn eftir fékk ég að vita að það væri ekki lengur laust fyrir hana.“
Um leið og fjölskyldan fluttist í Vogana sótti Daria um leikskólapláss fyrir dóttur sína þar í bæ en var sagt að allt væri fullt. Lena er því enn á biðlista og hefur verið síðan í janúar.
„Ég fór og talaði við þá um leið og ég kom frá Póllandi í janúar en var sagt að biðlistinn væri mjög langur. Ég fór því til Njarðvíkur en allt í allt sótti ég um á sex leikskólum í Reykjanesbæ. Ég fann loks eitt pláss þar en þá var mér sagt að ég fengi ekki plássið þar sem ég byggi ekki í Reykjanesbæ.“
Að sögn Dariu lét hún það alltaf fylgja með í umsóknunum að fjölskyldan væri frá Grindavík og væri því í mjög erfiðri aðstöðu þar sem barnið hefði skyndilega ekki lengur pláss á leikskóla.
„Ég útskýrði í löngu máli okkar stöðu og að dóttir mín væri einkabarn. Fjölskyldan mín varð eftir á Selfossi, en þar býr einnig mamma mín og sambýlismaður hennar, og við erum því hér ein. Þetta er alls ekki auðvelt,“ segir hún og tekur fram að staðan sé sú að í dag sé hún ekki með nein svör.
„Ég hafði samband við stjórnendur Grindavíkurbæjar síðast í morgun en ég hef verið að senda reglulega póst til að fá einhverjar upplýsingar. Mér líður bara svolítið eins og það sé búið að gleyma okkur og við séum týnd í kerfinu.“
Segist Daria hafa talað sérstaklega um það bæði við stjórnendur Grindavíkurbæjar og leikskólana hversu erfitt það væri fyrir dóttur hennar, sem er með íslensku sem annað tungumál, að hitta ekki önnur börn og vera á leikskóla.
„Hún var mjög opin hér áður fyrr og átti ekki í neinum vandræðum með íslenskuna á leikskólanum. Hins vegar virðist vera komið ákveðið bakslag hjá henni því nú talar hún sjálf um að hún kunni ekki lengur íslensku og þori ekki að tala hana. Ég hef því miklar áhyggjur af því hvaða áhrif þetta hefur á hana."
Segir hún Lenu ítrekað spyrja um kennara sína á leikskólanum og vinina og í upphafi hafi hún einungis vilja fara aftur á leikskólann Laut.
„Nýlega sagði hún hins vegar við mig, veistu mamma að ég er búin að skipta um skoðun. Mér er alveg sama hvert ég fer, mig langar bara að fara aftur á leikskóla.“
Spurð að því hvort fjölskyldan ætli að búa áfram í Vogum eða flytja eitthvert annað segir Daria það verða að koma í ljós.
„Í augnablikinu vitum við það ekki og allt ræðst það af því hvar við fáum leikskólapláss, því það er forgangsverkefnið okkar. Við getum ekki ákveðið neitt fyrr en það er allt komið á hreint, á meðan erum við bara í þessari óvissu.“
Að sögn Dariu hefur hún búið hér á Íslandi í 12 ár en árið 2014 fluttist hún til Grindavíkur þar sem hún starfaði sem gæðastjóri hjá Vísi hf.
„Í desember 2022 keyptum við fyrstu íbúðina okkar í Grindavík og er óhætt að segja að síðustu mánuðir hafi verið átakanlegir og stressandi. Ég vona bara svo innilega að Lena fái leikskólapláss sem allra fyrst svo við getum öðlast smá ró og einbeitt okkur að öðrum hlutum. Nógu mikið álag er á okkur nú þegar vegna breyttra aðstæðna.“