Ómar Friðriksson
Samtök atvinnulífsins (SA) minna á að allir skuli vera jafnir fyrir lögum í umsögn sem samtökin skrifuðu um frumvarpsdrög fjármála- og efnahagsráðherra um uppkaup íbúðarhúsnæðis í Grindavík. Nær frumvarpið ekki yfir húsnæði í eigu lögaðila.
Bendir SA á að eigendum atvinnuhúsnæðis standi ekki til boða frekari tryggingarvernd gegn náttúruhamförum en öðrum fasteignaeigendum.
„Ef fram heldur sem horfir munu fasteignir í Grindavíkurbæ ekki nýtast eigendum þeirra á árinu 2024 líkt og staðfest er með þessu frumvarpi. Það gildir jafnt um íbúðar- sem atvinnuhúsnæði enda var öllum, íbúum og þeim sem stunda atvinnurekstur í bænum, gert að rýma Grindavík með ákvörðunum lögreglustjórans á Suðurnesjum,“ segir m.a. í umsögninni.
Frestur til að skila inn umsögnum rann út í fyrrakvöld og alls höfðu á fjórða hundrað umsagnir borist þegar fresturinn rann út.
Vakin er athygli á því í nokkrum umsagnanna að ákvæði frumvarpsins taki ekki til eigna í dánarbúum einstaklinga. Lögmannsstofan Fortis ehf. er meðal þeirra sem benda á þetta og segir þetta geti leitt til þess að eignir dánarbús þar sem skiptum var ekki lokið 10. nóvember verði ekki keyptar.
„Þá getur orðalag frumvarpsins haft áhrif á rétt erfingja, ef þinglýstur eigandi var ekki búsettur á eigninni vegna dvalar á hjúkrunar- eða elliheimili, eða öðrum stað vegna aðstæðna sinna.“