Atvikið tekið alvarlega

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, segir atvikið, þegar ráðist var að …
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, segir atvikið, þegar ráðist var að þingmanninum Diljá Mist Einarsdóttur við Alþingishúsið, tekið alvarlega. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við fylgjumst auðvitað vel með öryggismálum í kringum þingið og það er auðvitað þannig að lögreglan ber ábyrgð á þeim viðbúnaði sem þarna er fyrir hendi og viðbrögðum við því. Samkvæmt okkar upplýsingum þá greip lögreglan þarna inn í og við erum í þéttu samtali við lögreglu um öryggismál sem tengjast þinginu og þetta er auðvitað partur af því.“

Þetta segir Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, spurður að því hvort þingið hafi tekið atvikið, þegar mótmælandi réðst að þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Diljá Mist Einarsdóttur, á mánudaginn við Alþingishúsið, til nánari skoðunar.

Lögreglan gat brugðist hratt við

Inntur eftir því hvort ástæða sé til að herða öryggið í kringum Alþingishúsið svarar Birgir því til að öryggismálin séu stöðugt í skoðun.

„Í þessu tilviki voru mótmæli í gangi og það var mikil viðvera lögreglu á þessum tíma svo hún gat brugðist hratt við. Við erum auðvitað eins og ég segi í stöðugu samtali við lögregluna um viðbrögð og aðstæður af þessu tagi,“ segir hann og bætir því við að hlutverk lögreglunnar sé að sjá til þess að þingið geti starfað óáreitt.

„Einnig að það séu ekki hindranir gagnvart því að þingmenn, starfsmenn eða þeir sem eiga erindi í þinghúsið komist þangað inn og út. Það er því mikilvægt að það sé tryggt á hverjum tíma. Það er auðvitað mat sem þarf að fara fram frá degi til dags og við erum í stöðugu sambandi við lögregluna út af því.“ 

Öryggi alþingismanna í stöðugri skoðun

Þá segir Birgir mótmæli alltaf kalla á aukinn viðbúnað lögreglu. 

„Það er auðvitað þannig að öryggi þingsins og þingmanna er eitthvað sem er stöðugt viðfangsefni hjá okkur. Þegar ástæða er til þess að hafa áhyggjur að þá erum við í sambandi við lögreglu varðandi það og þegar um er að ræða atvik af þessu tagi þá tökum við það auðvitað alvarlega og förum yfir stöðuna í framhaldinu,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert