Verkfallsaðgerðir hafa ekki verið ræddar innan Starfsgreinasambandsins að sögn Vilhjálms Birgissonar, formanns SGS, sem segir að þar sé unnið að því að kanna hvort hægt sé að finna lausn á málinu.
Vilhjálmur segir það liggja fyrir í sínum huga að lítið beri á milli samningsaðila, það séu einungis forsenduákvæðin sem steytir á.
„Það er alveg ljóst að ef óbilgirni Samtaka atvinnulífsins hvað forsenduákvæðin varðar þá getur þetta náttúrulega bara farið á versta veg, en ég ætla að leyfa mér að eiga þá von í brjósti að SA átti sig á alvarleika stöðunnar.“
Spurður hversu langan tíma hann hyggist gefa SA til að átta sig á alvarleika málsins svarar Vilhjálmur að hann meti það sem svo að næstu dagar, eða þessi vika, muni ráða úrslitum um það hvort samningsaðilar nái saman eða ekki, „hvort SA komi til baka.“
„Ég ætla bara ennþá að leyfa mér að eiga þá von í brjósti einfaldlega vegna þess að ég tel að við séum komin það langt og að hagsmunirnir sem eru hér undir, í þessu risa stóra máli sem er að ná niður hér verðbólgu, ná niður hér vöxtum, fá hér aðgerðarpakka sem lítur að því að lagfæra tilfærslukerfin af hálfu stjórnvalda, fá sveitarfélögin til að lækka hjá sér gjaldskrár sem lúta að barna og fjölskyldufólki,“ segir Vilhjálmur og ítrekar að um sé að ræða risa stór hagsmunamál og því mikilvægt að niðurstaða fáist í málið.
Vilhjálmur kveðst því halda í þá einlægu von að SA taki boltann og spyrni honum aftur til breiðfylkingarinnar, þannig að ríkissáttasemjari geti boðað samningsaðila aftur til fundar.
„En ef að þau átta sig ekki á alvarleika stöðunnar að þá er alveg ljóst að illa getur farið.“