Borgin auglýsir „handónýtt“ húsnæði til leigu

Ekkert rennandi vatn er í húsnæðinu og reglulega kemst vatn …
Ekkert rennandi vatn er í húsnæðinu og reglulega kemst vatn inn í skemmuna. Ljósmynd/Reykjavíkurborg/mbl.is/Arnþór

Reykjavíkurborg auglýsir húsnæði til útleigu í Gufunesi sem sagt er handónýtt. Húsnæðið er án salerna, án rennandi vatns, stenst ekki brunavarnir og ódrenað sem gerir það að verkum að reglulega kemur vatnselgur inn í húsið. Þá er þak hriplekt og engin niðurföll til að losa vatnið.

Rafmagn er á húsinu en á það hefur verið bent af fyrri leigjendum að hætta skapist þegar vatn á greiða leið inn í hús þar sem rafmagn er fyrir.

Um að ræða skemmu sem staðsett er í Gufunesi og var reist árið 1955. Var hún nýtt sem áburðargeymsla í fyrri tíð. Húsið situr á niðursprengdri klöpp sökum sprengihættu sem hlýst af geymslu áburðar.

Skemman var sprengd niður í klöpp vegna sprengihættu.
Skemman var sprengd niður í klöpp vegna sprengihættu. Arnþór Birkisson

Leiga til sex mánaða

Í auglýsingu frá Reykjavíkurborg er hvergi minnst á að húsið sé ósamþykkt en tekið er fram að leitast sé eftir fólki úr skapandi greinum til þess að leigja rýmið. Leigan er til skamms tíma eða sex mánaða.

Erling Jóhannesson, forseti Bandalags íslenskra listamanna (BÍL), skrifaði erindi til menningarskrifstofu borgarinnar þar sem kvartað var undan því hvernig málum sé háttað varðandi skemmuna og bent á skort á stuðningi við mögulega leigjendur og framtíðarsýn með rýmið.

Hann segist hafa fengið svar um hæl frá skrifstofunni og m.a. fengið þau svör að starfsfólk hennar hafi ekki haft hugmynd um það að skemman hefði verið auglýst. Vísaði hún á eignaumsýslu borgarinnar.

Borgin auglýsir eftir skapandi fólki til að glæða lífi í …
Borgin auglýsir eftir skapandi fólki til að glæða lífi í skemmuna sem áður var nýtt undir áburð. Mbl.is/Arnþór Birkisson

Ekki nýtilegt í nokkurn skapaðan hlut 

Hann bendir á að erlendis séu fyrirmyndir að því að rými hafi verið gerð vistlegri með aðkomu listamanna en í þessu tilfelli sé verið að beina fólki að rými sem sé „handónýtt“.

„Í þessu tilfelli er verið að auglýsa handónýta skemmu sem er ekki nýtileg í nokkurn skapaðan hlut. Ungt fólk hefur farið þarna inn, farið að framkvæma og gert það án nokkurrar framtíðarsýnar eða stuðnings frá borginni. Svo gefast allir upp, nokkrum milljónum króna fátækari,“ segir Erling. 

Er hann þar m.a. að vísa til listahópsins Fúsks sem dvaldi þarna um nokkurt skeið og sýndi mikla atorku í að lífga upp á staðinn að sögn Erlings. 

„Um leið og þú sérð hlutina lifna við þá þarf borgin að koma að og styðja við þetta, drífa þetta áfram, en öll samskipti hafa verið við eignaumsýsluna, ekki við menningarskrifstofu borgarinnar,“ segir Erling. 

Erling Jóhannnesson er forseti Bandalags íslenskra listamanna.
Erling Jóhannnesson er forseti Bandalags íslenskra listamanna. Ljósmynd/Hrafn Jónsson

Varar fólk við að sækja um rýmið 

Umsóknarfrestur er til 17.febrúar. Er kannski ástæða til að vara þá við sem hyggjast sækja um? 

„Já og okkur finnst að það þurfi að vera eitthvað skipulag og stuðningur frá menningarskrifstofu um framtíðina, í stað þess að rýmið sé bara auglýst að frumkvæði eignaumsýslunnar. Því er um að gera að vara fólk við,“ segir Erling.

„Enda er bara skrítið að leigja þetta í sex mánuði. Á að breyta þessu í kvikmyndastúdíó eða hljóðver með tilheyrandi kostnaði á þeim tíma? Það meikar náttúrlega engan sens.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert